144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er að hugsa um að byrja ræðu mína á ljóði sem heitir Eftirmæli eftir ljóðskáldið Stein Steinar. Mér finnst það lýsandi fyrir það ástand sem við búum við í dag.

Þú varst bæði auralaus og illa klæddur maður,

með afar stóra fætur og raunalegar hendur.

Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum, sem slíkur,

og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.

Og sjaldan heyrðist talað um sálargáfur þínar,

og sennilegt þær hafi frekar lítinn ávöxt borið.

Þú þekktir hvorki leyndardóma þessa heims ná annars.

Og það var ekki meira en svo að þú kynnir Faðirvorið.

Þú reyndir samt að bjarga þér. Og fékkst á yngri árum

við arðberandi fiskirí í Grindavík og Leiru.

En svo var eins og lukkan hefði lagt sig ögn til hliðar,

það lögðust á þig veikindi og skuldir, ásamt fleiru.

Þú áttir jafnvel stundum býsna örðugt með að lifa

og ennfremur var tóbaksleysið kunnugt heima hjá þér.

Og giktin, sem er launráð og lymskufull í skapi,

hún lagðist oft svo herfilega þungt í bakið á þér.

Þú kyntir stundum miðstöð fyrir kaupmanninn og prestinn,

og kaupið þitt var hærra en þér bar, að réttu lagi,

það var samt lítill vafi, að þig langaði í meira.

Þú lézt þér jafnvel sæma að kvarta um eigin hagi.

Það sást þó bezt í vetur, er þú týndir tóbaksbauknum

og tíkin komst í grautinn, sem læknisfrúin gaf þér,

hve hugur þinn var bundinn við heimsins lystisemdir,

og hörmulega lítils við gátum vonazt af þér.

Þú gerðist oft svo djarfur, að tala um toll á kaffi

og taldir þetta glæpsamlegt af stjórnarherrum landsins,

en slíkt er ekki ráðlegt fyrir ræfla af þínu tagi,

og reynist jafnvel skaðlegt fyrir trúargleði mannsins.

Þér hlotnuðust þó molarnir af höfðingjanna borðum,

en hamingjan má vita, hvort þú skildir miskunn slíka,

og hvort þú hefir lifað samkvæmt lögmáli vors herra,

sem lætur þorskinn veiðast fyrir fátæka sem ríka.

En loksins ertu dauður, þú lítilsigldi maður,

og laun þín eru náttúrlega sanngjörn eins og hinna.

Við ætlum hvorki að forsmá þig né fella þunga dóma.

Þér fylgir inn í eilífðina kveðja bræðra þinna.

Þetta finnst mér í hnotskurn vera þessi nýi skattur og viðhorf ríkisstjórnarflokkanna til almennings á Íslandi, sem mér finnst sorglegt. Ég hvet fólk til að fara og finna sér þetta ljóð því það er oft það sem ég geri þegar ég er að hugsa um hvernig ég get sagt í fáum orðum það sem mér liggur á hjarta um það sem við erum að sýsla við á Alþingi.

Mér finnst magnað að ríkisstjórnin komi fram með jafn furðulegt orðalag og það að þessi gjörningur sé einföldun. Hvernig í ósköpunum getur þetta verið svona einfalt ef það þarf að útskýra í svo flóknu máli hvernig þetta á að vera gott fyrir öll hin meintu heimili landsins? Hafa þessir háu herrar og frúr aldrei talað við fólkið, aldrei upplifað hvernig það er að eiga ekki fyrir mat út mánuðinn? Ég held ekki. Í það minnsta skilja þeir ekki hvernig það er. Þeir sem eiga ekki fyrir mat út mánuðinn, en þeim fjölgar sífellt sem eru í þeirri stöðu, geta ekki þó þeir vilji keypt sér nýjan ísskáp. Þeir fara inn á bland.is og kaupa sér notaðan ísskáp eða fá gefins ísskáp. Þeir eru ekki að fara að endurhanna baðherbergið sitt. Það er áhyggjuefni ef það springur dekk og enn meira áhyggjuefni ef það finnst skemmd tönn. Þetta fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Þetta eru svo margir. Þetta fólk var ég. Ég man hvernig það var að hafa áhyggjur af því að eiga ekki fyrir mat. Ég man hvernig þessi mánuður var. Það eru ekki gleðitíðindi sem við færum fólki sem á ekki fyrir jólunum að jólamaturinn verði dýrari. Hver er hæsti útgjaldaliður heimila fyrir utan glæpsamlega háa leigu og glæpsamlega hátt húsnæðisverð? Það er maturinn okkar og það eru fötin á börnin okkar.

Ríkisstjórn ætlar með þessum tillögum að hækka neðra skattþrepið. Það sem mér finnst alveg ótrúlegt og svo svívirðilegt er að hér var lagt upp með leikrit um að Framsóknarflokkurinn ætlaði hugsanlega að draga sinn stuðning við það til baka, en það var aldrei svo. Þessi 11% voru í öllum gögnum, í öllum útreikningum en það var gerð tillaga um þetta ótrúlega hryllilega 12% skattþrep. Nú er allt í einu í lagi að það sé 11% og á síðan að hækka upp í 14%. Hvað er það hátt í prósentum talið? Hvað er það mikil hækkun á matarkörfunni? Það er of mikil hækkun. Maður getur ekki leyft sér að hætta að borða. Þó að maður geti stundum sleppt úr máltíð fyrir sjálfan sig þá getur maður ekki hætt að gefa börnunum sínum að borða. Ég skal lofa ykkur því að skólamáltíðir og leikskólamáltíðir munu hækka eða verða óhollari. Hvort er betra? Ég hef glímt við það eins og mjög margir sem ég þekki að reyna að minnka aðeins sykur í mínu daglega lífi og það er flókið mál. Það er sykur í nánast öllu. Ég var ein af þeim sem fyrir hrun keyptu sér oft spelt til að reyna að minnka notkun á hveiti sem er víst mjög óhollt. Núna er spelt svo dýrt að maður tímir eiginlega ekki að kaupa sér slíkt, flestir hafa eiginlega ekki efni á því. Það er verið að refsa fólki fyrir að borða hollan mat því nú mun speltið hækka enn meira. Hækkunin mun líka fara inn í ýmislegt annað sem er háð vísitölunni okkar. Margir þingmenn Framsóknarflokksins sem ekki eru hlynntir verðtryggingu á húsnæðislánum fóru mikinn á síðasta kjörtímabili um hve slæmt það var þegar olía eða brennivín eða tóbak hækkaði af því að það skilaði sér beint í hækkun á húsnæðislánum. Þegar ég skoða þetta, og ég er bara almenningur, þá finnst mér þetta í raun og veru, svo ég sletti, fyrirgefðu forseti, ekki meika neinn sens. Ég skil þetta ekki. Ég skil ekki hvernig þetta á að einfalda virðisaukaskattskerfið. Hvernig er það? Hafa virkilega engir af þeim þingmönnum sem leggja þetta til og tala um einföldun nokkurn tíma rekið lítið eða meðalstórt fyrirtæki? Alltaf þegar verða virðisaukaskattsbreytingar þarf að breyta öllum sjóðsvélum. Það er mjög dýrt og mikið vesen og sá kostnaður mun fara beint út í verðlagið.

Hverjar verða afleiðingar af hækkun á bókaskattinum? Þýðir það ekki væntanlega að námsbækur hækki? Það truflar mig svolítið við þessa vinnu og hvernig hlutirnir eru settir upp á Alþingi sú tilhneiging að rekja alltaf upp það sem fyrri ríkisstjórnir gerðu. Ég hef sagt þetta áður, við erum endalaust að horfa upp á að það er fenginn efniviður í peysu, en hún er aldrei kláruð og það veit enginn hvernig peysan á að líta út. Svo er hún rakin upp og núna er efniviðurinn slitinn. Þið vitið hvernig það er þegar maður rekur upp garn, sérstaklega lopa, hann þynnist og þynnist þangað til spottinn verður svo rýr að maður þarf að byrja að hnýta hann saman eða peysan byrjar að verða götótt. Ég upplifi það þannig að í staðinn fyrir að taka heildrænt á þessu flókna kerfi sem virðisaukaskattskerfið er, er það í raun og veru flækt enn frekar af því að það á að flækja önnur kerfi með einhverjum mótvægisaðgerðum sem eru ekki alveg skýrar. Ég skil ekki svona vinnubrögð. Mér finnst þetta rosalega furðuleg vinnubrögð.

Þetta er svo sem ekki fyrsta ríkisstjórnin sem sýnir furðuleg og flókin vinnubrögð varðandi virðisaukaskatt. Ég verð líka að segja og það hljómar kannski mjög furðulega, en mér finnst rosalega skrýtið að þrátt fyrir að við borgum mikla skatta, það er tekinn skattur af launum okkar til að keyra áfram sameiginlegt kerfi okkar og allt í fínu með það, þá eru skattar settir á bókstaflega allt annað líka. Maður er oft að borga margfalda skatta af einhverju dóti og þjónustu, grunnþjónustu. Þegar matarskatturinn er orðinn svona hár og það er engin sérstök hugmyndafræði á bak við hann nema að einfalda eitthvert kerfi þá verður maður að láta í sér heyra. Það er ekki hægt að segja að þetta sé í lagi. Það á ekki bara að svelta okkur líkamlega heldur á að svelta okkur líka andlega.

Nú vill svo til að ég er gríðarlegur hagsmunaaðili hér, ef svo má segja, þar eð ég er manneskja sem bý oft til ljóðabækur og minn fyrsti starfstitill var ljóðskáld. Það er mjög erfitt að sjá einhvern hagnað í því, það er alltaf einhver hugsjón hjá bókaútgefendum að gefa út ljóðabækur. Sú hugsjón hefur oft þurft að láta í minni pokann af því að það er ekki hægt að reka fyrirtæki á hugsjóninni einni saman. Nú þykir mér einsýnt að við getum gleymt því að það komi út ljóðabækur ungskálda eða eitthvað slíkt. Það mun ekki gerast með hækkun á bókaskatti.

Ég vil leyfa mér að leiðrétta aðeins félaga minn úr Pírötum, Helga Hrafn Gunnarsson, að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af tónlistarmönnum. Ég er alin upp af tónlistarmanni og alin upp í þeim heimi og það er gríðarlega mikil vinna sem getur farið í það ekki bara að semja lagið — ég var andvaka margar næturnar þegar móðir mín var að búa til lög inni í eldhúsi — heldur líka í alla útfærslu á laginu þegar það endar síðan á hljómplötu. Það er ekkert endilega mjög einfalt mál og ég vil alls ekki að tónlistarmenn haldi að við sýnum því ekki skilning að í það fer mjög mikil vinna, það er ekki mjög einfalt verk að búa til t.d. sinfóníur eða alþýðutónlist.

Ég hef miklar áhyggjur af hinum skapandi greinum og þeirri útreið sem þær fá í frumvarpinu. Það er mikilvægt að næra bæði huga og líkama og hvorugt mun geta þrifist í þessu landi ef fer sem fer. Ég hef líka áhyggjur af stöðu prentaðra miðla og fjölmiðla almennt. Það geta ekki margir miðlar haldið úti kröftugum rannsóknarblaðamönnum. Það þarf að geta leyft blaðamönnunum að eyða góðum tíma í að rannsaka hluti og það liggur mikil kúnst, þrautseigja og vitsmunir að baki því að geta unnið vel mjög flókna hluti og komið þeim áleiðis á mannamáli. Ekki síður er mikil kúnst að kunna að rannsaka hluti og sjá fleti á mikilvægum samfélagslegum og þjóðfélagslegum málefnum. Það er ekki einfalt mál og kostar mikið. Erlendis er það víða orðið þannig að rannsóknarblaðamennska á mjög undir högg að sækja og lögfræðideildir blaðanna orðnar stærri en rannsóknarblaðadeildirnar. Það að taka þann vettvang sem var ef til vill bestur fyrir rannsóknarblaðamennsku, hina prentuðu miðla, og höggva svo hressilega í hann gæti riðið þeim að fullu. Það er hátt högg.

Þegar dregið er eitt pennastrik yfir mjög marga málaflokka eins og hér er gert þá finn ég fyrir því, þegar ég heyri stjórnarþingmenn ræða um þessar tillögur um breytingar á virðisaukaskattsþrepunum, að ekki er almennilegur skilningur á margbreytileika samfélagsgerðarinnar. Það veldur mér áhyggjum. Mér finnst við ekki hafa farið nægilega djúpt í þessi mál, allar þær ólíku afleiðingar og víxlverkanir sem þetta mun hafa í för með sér. Þess vegna mundi ég vilja að nokkrir þættir yrðu skoðaðir mjög vel á milli umræðna þegar málið fer inn í nefnd.

Það er svolítið skondið eða kannski frekar sorglegt að sú mantra sem maður heyrði gjarnan frá Sjálfstæðisflokknum, stétt með stétt, er ekki í þessum anda, verð ég að segja. Mér finnst í raun og veru furðulegt þegar flokkar sem leggja upp með að lækka skatta geri þetta. Ég er sannfærð um að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu ekki bara ríkmenni eða 1% elítan heldur margir aðrir, ekkert ósvipaðir og maðurinn sem fjallað er um í ljóðinu Eftirmæli eftir Stein Steinar, fólk sem bíður eftir að fá molana niður af borðinu Ég held að þetta verði þannig að ef skatturinn á þessa flokka fer svona í gegn og hækkar síðan í 14%, það verði allt of mörgum of þungur biti til að geta tekið. Mér finnst að meiri hlutinn eigi að endurskoða þessar tillögur. Þetta er ekki til þess fallið að einfalda neitt. Þetta er óráðsía á tímum þar sem aldrei hefur verið meiri barnafátækt á Íslandi. Þetta er aðför að fjöldamörgum heimilum í landinu.

Ég var að skoða í frumvarpinu lista yfir dæmi um fjölskyldur og ráðstöfunartekjur og ég skil ekki hvað liggur að baki þeim tölum. Mér er fyrirmunað að skilja það. Hver í ósköpunum reiknaði þetta og á hvaða forsendum? Maður skammast sín pínulítið fyrir að vera á þessum vinnustað og geta gert svo lítið til að sannfæra hina þingmennina. Það er ekki nokkur einasti þingmaður hér úr stjórninni að hlusta á mína ræðu og samt á ég að heita talsmaður fyrir minn flokk. Manni finnst dálítið ótrúlegt að geta ekki átt í samræðu við þá sem leggja fram þessar tillögur. Það er ekki boðið upp á neina samræðu á þessum stað. Það finnst mér skammarlegt. Það er ekki í fyrsta sinn sem þeir sem standa fyrir svona veigamiklum breytingum í samfélaginu eru hvergi sýnilegir og eru ekki á staðnum til að segja mér og sannfæra mig um að ég hafi hreinlega rangt fyrir mér, að ég sé kannski bara ómálefnaleg. Þögnin segir meira en allt. Þessi æpandi þögn Framsóknarflokksins segir mér að kannski kunni þeir einhvers staðar að skammast sín fyrir að taka þátt í þessari aðför að heimilunum í landinu. Þetta mun koma við hvert einasta heimili í landinu óháð skuldaniðurfærslugjörningum þeirra sem hefur síðan kannski komið í ljós að voru meiri barbabrellur en lofað var.