144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil gera aðeins áfram að umhugsunarefni stöðu barna í láglaunafjölskyldum. Nú er verið að hækka virðisaukaskatt á barnabókum. Við höfum stært okkur af því að vera bókaþjóð og breitt úr okkur á bókamessum víða um heim og verið bara ánægð með okkur en síðan þegar á reynir berum við ekki meiri virðingu fyrir þeirri menningu okkar en kemur fram í frumvarpinu. Hvað telur hv. þingmaður að aðstaða láglaunafólks verði verri gagnvart því að njóta íslenskra bókmennta, barnabóka, kaupa t.d. jólagjafir fyrir börnin sín og íslenska tónlist, þ.e. að nýta sér þessa framleiðslu sem við höfum verið stolt af, Íslendingar, hvort sem það eru bókmenntir, tónlist eða hvað annað í hugverkum? Telur hv. þingmaður að við séum að breikka bilið hjá neytendum menningar okkar innan lands og hvort láglaunafólk sé þá skörinni lægra og hafi hreinlega ekki neina möguleika á að nýta sér þá menningu?

Svo langar mig aðeins að heyra hvort hv. þingmaður telji að eitthvað sé skilið eftir sem ekki er virðisaukaskattsskylt sem ætti að taka inn í. Vil ég t.d. nefna laxveiðar, hvort það sé eitthvað, og jafnvel að skoða það að gera sölu á kvóta og leigu á kvóta virðisaukaskattsskylda sem mundi auðvitað hafa gífurleg áhrif á alla þá grein og brask sem þar er á ferðum.