144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru margar spurningar en ég þakka fyrir þær. Mig langar aðeins að gera að umtalsefni stöðu bókarinnar einfaldlega út af því að það er heimur sem ég þekki mjög vel. Ég er sannfærð um að ef við spýtum ekki í að búa til aðgengilegar og skemmtilegar bækur fyrir stráka til dæmis munum við glata mjög mikilvægu tækifæri. Ég á einn strák sem er mjög mikið í tölvum og það eru ekki margar íslenskar barna- og unglingabækur sem heilla hann en aftur á móti heillast hann af ákveðnum enskum bókum.

Það er rosalega lítil nýsköpun í íslenskum barnabókmenntum út af því að það er dýr framleiðsla og þeir sem gefa út barnabækur taka áhættu. Útgáfa dýrra bóka mun minnka, m.a. barnabóka. Það eru líka bækur í heimsbókmenntaklassa eftir rithöfunda sem hafa mikil áhrif á aðra rithöfunda. Ég nefni einn rithöfund sem ég veit að selur aldrei mikið af bókum en gerir alveg gríðarlega mikilvægar og magnaðar bækur, ég ætla ekki endilega að nefna nein nöfn. En það eru til örfáir slíkir rithöfundar sem væri ekki þess virði fyrir útgáfurnar að gefa út þrátt fyrir að það væri hugsanlega besta bókin sem kæmi út það árið. Á fólk ekki bara að éta ísskápa? Það er hægt að búa til ýmsar máltíðir úr snjó. Það er hægt að setja sykurdrull í það, t.d. svokallað kool-aid eða eitthvað og þá verður það mjög seðjandi.

Við erum á vegferð sem mér finnst einhvern veginn ekki vera almennilega rædd hér inni. Við erum á vegferð sem við þurfum virkilega að taka miklu ítarlegri og dýpri samræður um áður en hægt er að samþykkja þessar tillögur ríkisstjórnarinnar.