144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir spurninguna, hún var góð, gild og mikilvæg því að forgangsröðunin er sérstök. Margir úti í samfélaginu hafa sagt að forgangsröðunin einkenni svolítið þá sem fara með völdin og þann veruleika sem þeir búa við.

Þó svo marga langi mikið í flottan ísskáp því að þeirra er alveg að detta í sundur þá geta þeir ekki leyft sér það, jafnvel þó að þeir lækki pínulítið, en þeir verða að borða. Maður kemst ekki hjá því að borða eitthvað á hverjum degi nema maður sé að fasta. Ég held að flestir þeir sem búa í þessu samfélagi sem og öðrum fasti ekki allt árið um kring. Þessi forgangsröðun er svo rosalega skökk, fyrir utan allar undanþágurnar frá virðisaukaskatti o.s.frv. Það er skakkt gefið.

Því miður verður það þannig að þeir sem tapa verða heimilin í landinu. Gríðarlega stór hluti fólks sem býr í landinu þarf að hugsa um hverja einustu krónu. Fólk er enn að jafna sig eftir efnahagshrunið. Það varð ekkert „svokallað hrun“, það varð alvöruhrun. Að bæta þessu ofan á ásamt komugjöldum og alls konar hækkuðum gjöldum þýðir bara að það verður erfiðara fyrir fólk að draga fram lífið, sér í lagi ef það á virkilega að hækka virðisaukaskatt af mat upp í 14% — 11% er mjög mikið, það verður mikið högg.