144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér annað tekjufrumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á virðisaukaskatti. Við jafnaðarmenn teljum að eitt mikilvægasta markmið stjórnmálanna sé að tryggja frelsi einstaklinganna. Frelsi einstaklinganna til að velja sér ævistarf, til að lifa við velferð, hafa aðgengi að heilbrigðiskerfi og menntakerfi til að geta þroskað hæfileika sína og notið þess ævintýris sem lífið er í sátt við aðra og sjálfa sig. Til að frelsi einstaklinganna verði sem best tryggt þurfum við samábyrgð og jafnrétti. Samábyrgð og jafnrétti náum við með skilvirku skattkerfi sem tryggir jafnframt tekjujöfnun eftir fremsta megni. Við þurfum öflugt og gott almannatryggingakerfi og fleiri tilfærslukerfi, svo sem eins og atvinnuleysistryggingar, barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur. Þetta eru kerfin sem tryggja öllum ráðstöfunartekjur til að hafa í sig og á en við þurfum líka samneysluna sem er sterk almannaþjónusta. Dæmi um sterka almannaþjónustu eru heilbrigðiskerfi og menntakerfi þar sem allir hafa jafnan aðgang óháð efnahag. Af hverju vel ég að ítreka þessa stefnu okkar jafnaðarmanna hér yfir þessu litla frumvarpi? Það er af því að breytingin sem það boðar ógnar markmiðunum um jöfnuð sem og samábyrgð.

Það hefur mikið farið fyrir því hér í umræðunni um þetta frumvarp að verið er að hækka matarskatt. Virðisaukaskattur á matvöru var lækkaður rétt fyrir kosningar 2007, það var ríkur vilji Framsóknarflokksins. Uppi voru ákveðnar efasemdir um tímasetningar því að það var mikil verðbólga á þessum tíma á hátindi útþenslunnar en þetta var loforðið eða kosningavíxillinn og búið að breyta skattkerfinu þegar gengið var til kosninga. Þar af leiðandi stóð það dálítið í Framsóknarflokknum þegar átti að fara að hækka þennan skatt úr 7% í 12%. Fimm prósentustiga hækkun á matvöru, þetta var það stórt mál að flokkurinn í heild sinni, með ráðherrana innan borðs, gerði fyrirvara við sjálft fjárlagafrumvarpið. Þetta var hálfniðurlægjandi staða fyrir fjármálaráðherra að leggja fram frumvarpið og átta sig svo á því að annar stjórnarflokkurinn gat illa stutt það og þar var hækkun á matarskatti gefin sem skýring.

Það á líka að hækka skatta á bókum, tónlist og kvikmyndum en það á að lækka sykur, innfluttar vörur af ýmsu tagi í gegnum vörugjöldin og svo á að lækka hærra virðisaukaþrepið úr 25,5% niður í 24%. Við samfylkingarfólk erum fylgjandi lækkun vörugjalda en við höfum sagt í þessu samhengi að við teljum að tímasetja þurfi lækkun þeirra eða afnám rétt og það geti ekki verið á kostnað matarinnkaupa fjölskyldnanna í landinu og fólksins í landinu.

Hvað varð svo um stóra fyrirvarann við 12% skattinn? Hann virðist vera hættur að vera nokkurt vandamál fyrir Framsóknarflokkinn því að matarskatturinn verður ekki hækkaður úr 7% í 12% heldur úr 7% í 11% sem er auðvitað bitamunur en ekki fjár og mun engu breyta fyrir innkaup fólks í landinu en er bara vandræðalegt og Framsóknarflokknum til skammar að setja á svið svona öfugmælaleikrit fyrir okkur.

Hér kem ég að því að í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað um þessi mál með matarskattinn, að fram hafi komið athugasemdir við þetta og ég ætla að fá að vitna hér beint í nefndarálitið og leyfa því að tala sínu máli, með leyfi forseta. Þar segir á bls. 3:

„Breytingar á virðisaukaskattskerfinu þurfa að eiga sér stað með varfærni að leiðarljósi. Markmið frumvarpsins er einföldun og aukin skilvirkni skattkerfisins en einnig skattalækkun fyrir alla tekjuhópa. Hækkun neðra þreps, lækkun efra þreps og afnám almenns vörugjalds þarf í heildina að fela í sér skattalækkun. Fyrir nefndinni komu fram efasemdir um að þetta markmið væri nægilega tryggt í tilfelli tiltekinna hópa. Til að taka af allan vafa í því efni leggur meiri hlutinn því til að skatthlutfall neðra þrepsins verði 11% í stað 12% auk þess sem ríkisstjórnin hefur lagt til að á útgjaldahlið fjárlaga verði komið sérstaklega til móts við barnafjölskyldur, aukin framlög til húsaleigubóta og aukin framlög til lækkunar á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði.“

Nú er ég búin að lesa þessa klausu og nú ætla ég að fara stuttlega yfir mótvægisaðgerðirnar sem blíðkuðu Framsóknarflokkinn svo mjög að hann ákvað að kyngja virðisaukaskattinum, hækkuninni á matvælin. Ég ætla að byrja á barnabótunum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru þær 10 milljarðar. Nú er búið að leggja fram tillögu um hækkun um 1 milljarð þannig að þær verði 11 milljarðar. Það er rétt að barnabæturnar hækka miðað við síðasta ár en það er frekar um lækkun að ræða miðað við árið 2013 ef við lítum til raunvirðis. Þá var matarskatturinn 7% þannig að þetta er útúrsnúningur og það er verið að reyna að blekkja fólk til að trúa því að verið sé að bæta í barnabótakerfið. Svo er ekki. Það er eingöngu verið að leggja fram lágmark. Það hefði frekar átt að hækka barnabætur enn frekar því þær hafa dregist langt aftur úr. Mig langar í því samhengi að drepa aðeins niður í álit minni hluta nefndarinnar sem hefur áhyggjur af því að barnabæturnar hækki ekki nóg og bendir á að tekjuskerðingarmörk barnabóta séu of lág þannig að þeir sem eru á lágmarkslaunum njóti ekki fullra barnabóta.

Það vita það allir líka að við í minni hlutanum vöruðum við því í síðustu fjárlagagerð að barnabæturnar — það sem þó var áætlað í þær — mundu ekki ná að skila sér vegna skerðingaráhrifanna, það mundi ekki nást að deila út þessum fjármunum sem þó voru á fjárlögum. Og það kom á daginn að við höfum rétt fyrir okkur. Það sama mun gerast nú nema skerðingarmörkunum verði breytt. Þetta lítilræði sem bætt var í barnabætur sem sérstakri mótvægisaðgerð mun að öllum líkindum ekki einu sinni skila sér almennilega. Ég er farin að leyfa mér, frú forseti, að hafa grun um að það sé eiginlega ætlunin að plata.

Förum í næsta atriði. Það eru lyfin. Það er saga að segja frá þeirri mótvægisaðgerð. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu átti að spara 305 millj. kr. í lyfjakostnaði. Þetta voru 305 millj. kr. sem áttu að fara yfir á þá sem voru að kaupa lyfin. Annars vegar átti að bæta inn S-merktum lyfjum sem gefin eru út utan heilbrigðisstofnana. Það átti að auka byrðar á sjúklinga um 145 millj. kr. Síðan átti að hækka þakið í greiðsluþátttökunni þannig að 160 millj. kr. skiluðu sér í ríkiskassann. Enn hefur ekki komið fram að hætta eigi við að auka kostnað vegna S-merktra lyfja en því má finna allt til foráttu ekki bara út frá réttlætissjónarmiðum heldur líka bara mjög praktískum sjónarmiðum. Lyfin verða dýrari því að ríkið getur ekki farið í útboð með sama hætti því að það hefur alltaf verið selt í gegnum apótek Landspítalans en ég ætla ekki út í þá tæknilegu umræðu hér. Þannig að í staðinn fyrir að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga í lyfjum um 305 millj. kr. verður hún aukin um 155 millj. kr. Í þessari mótvægisaðgerð er sem sagt bara verið að draga úr hækkunum sem boðaðar voru í fjárlagafrumvarpinu. Það er ekki með neinu móti verið að draga úr lyfjakostnaði sjúklinga. Það er bara minni hækkun en var boðuð í frumvarpinu. Þetta fer að verða eins og mynstur. Frumvarpið er lagt fram og sagt: Svo ætlum við að breyta og hækka. Í frumvarpinu á að skera niður en með breytingunum er minna skorið niður en hótað var í fjárlagafrumvarpinu.

Svo komum við að húsaleigubótunum. Þær eiga að hækka um 400 millj. kr. Það er viðleitni en ég hef grun um — ég hef ekki náð að leggjast almennilega yfir það — að það þurfi að vera mun meiri hækkun til að mæta auknum kostnaði fólks á húsnæði á leigumarkaði síðastliðin ár. Það er líka mikilvægt að muna að til að mynda örorkulífeyrisþegar eru margir á leigumarkaði og samkvæmt nýjum félagsvísum Hagstofunnar kemur fram að öryrkjar eru einn af þeim þremur hópum sem eru í mestri hættu á að lenda í að verða fátækir. Þó að ég ætli ekki að gera lítið úr því að framlög til húsaleigubóta hafi verið hækkuð þá held ég að um allt of litla hækkun sé að ræða.

Förum nú í almannatryggingarnar. Þær eru ekki nefndar sem mótvægisaðgerð enda eru þar heldur betur tíðindi á ferðinni. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu var áætlað að bætur almannatrygginga skyldu hækka um 3,5% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins; 3,5% er ekki mikil hækkun en það er þó í samræmi við eitthvað annað í fjárlagafrumvarpinu og það er langan veg frá því að vera leiðrétting á kjaragliðnun sem Sjálfstæðisflokkurinn, sjálfur fjármálaráðherra núverandi og sjálfur hæstv. forsætisráðherra núverandi sögðu fólki, kjósendum, fyrir kosningar að þeir ætluðu nú aldeilis að leiðrétta. Sú leiðrétting hefur ekki farið fram og með 3,5% hækkun átti að halda í við verðlag þó að í lögunum segi að það eigi að jafnaði að fylgja launaþróun en aldrei að fara niður fyrir neysluverðsvísitölu. En nú bregður svo við að það er verið að lækka þennan lið á fjárlögum í breytingartillögum frá meiri hlutanum því að þjóðhagsspáin er hagfelldari en sú sem lá til grundvallar þegar fjárlagafrumvarpið 2015 var í smíðum. Í stað þess að hækka bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga um 3,5% verður hækkunin 3%. Þarna var hægt að finna 500 millj. kr. til sparnaðar og þótti sjálfsagt og þarf virkilega að lúslesa textann til að átta sig á hvað þarna er á ferðinni, það er vitanlega ekki sagt skýrum hætti þannig að örorkulífeyrisþegar, svo að við tökum þá sem dæmi, sem eru að fá á sig hækkun matarskatts, hækkun á lyfjaverði, húsaleigubætur hækkaðar of lítið, fá ekki að fullu þá hækkun á bótum sem fjárlagafrumvarpið gaf fyrirheit um og fá á engan hátt leiðréttingu á kjaragliðnun, þvert á móti.

Við vitum hvernig verið er að fara með framhaldsskólann ef við lítum til samneyslunnar og svo erum við með Landspítalann þar sem forsætisráðherra, síðast í dag í óundirbúinni fyrirspurn, svaraði mér því að aldrei hefði jafnmikið fjármagn farið inn í Landspítala. Þá er ég hér með tölur. Árið 2009, árið eftir hrun, var það fjármagn sem fór til Landspítalans tæplega 2,5% af vergri landsframleiðslu það sama og í dag í þessum rausnarlegu aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ekki ber að gleyma því að álag á spítalann eykst ár frá ári vegna hlutfallslegrar fjölgunar eldri borgara þannig að þetta er skammarlegt.

Það er boðið upp á hálfsannleik, fyrst niðurskurð og síðan minni niðurskurð sem á að þýða einhver hækkun og mótvægisaðgerð. Það má sjá að í stjórnartíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem var hér við völd frá árinu 1995 til 2007, óx ójöfnuður á Íslandi. Hann óx gríðarlega. Það var ekki bara vegna mismunar í atvinnutekjum og fjármagnstekjum heldur vegna aðgerða í skattkerfinu, barnabótakerfinu og fleiri kerfum sem munur í ráðstöfunartekjum varð svo mikill. Í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var þessari þróun snúið við og jöfnuður fór vaxandi á tímum þeirrar ríkisstjórnar.

Ég harma það að við séum að fara að upplifa sams konar ferðalag með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og við fórum í gegnum á árunum 1995–2007 og hvet Framsóknarflokkinn sérstaklega til að íhuga hvort hann sé tilbúinn til að leggja í þetta að nýju.