144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar, hún var mjög upplýsandi. Mig langar til að spyrja út í samspil lækkaðra vörugjalda og hækkunar á matarskatti og svo aftur lækkun á hinum svokallaða sykurskatti. Hvort þetta muni að mati þingmannsins, sem hefur nokkuð látið sig lýðheilsumál varða, leiða til þess sem við höfum séð t.d. í Bandaríkjunum þar sem því miður má oft sjá efnahags fólks utan á því. Hinir tekjuminni eða tekjulægri bera það utan á sér að þeir neyta óhollari matar en aðrir. Ástæðan fyrir spurningunni er að ég hef raunverulegar áhyggjur af því að með þeim breytingum sem hér er verið að kynna sé verið að ýta undir þá þróun. Ég hefði mjög mikinn áhuga á því að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.