144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi samspil vörugjalda og virðisaukaskatts á matvæli geri ég ráð fyrir því að þingmaðurinn sé að benda á að á meðan þessar aðgerðir þýða að vöruverð hækkar almennt lækkar verð á dýrari innfluttum vörum. Þar getum við tekið dæmi eins og þvottavélar, ísskápar, bíla og fleira sem auðvitað er rétt að öll heimili eiga, en þetta eru líka vörur sem fólk kaupir sjaldnar, getur dregið að kaupa eða reddað sér með öðrum hætti, um einhvern tíma a.m.k. En hærri virðisaukaskattur á matvæli þýðir hækkun á verði matvöru fyrir öll heimili í landinu og kemur hlutfallslega þyngst niður á heimilum í lægri tekjuhópum samfélagsins. Það er líka millistéttin sem hæstv. forsætisráðherra lofaði að endurreisa hér á landi, hún kaupir líka í matinn. Þetta er umtalsverður hluti af útgjöldum heimila hennar eins og annarra.

Varðandi sykurskattinn var hann settur á á síðasta kjörtímabili. Þar réðu lýðheilsusjónarmið. Ég held að almenn sátt sé um að eðlilegt sé að skattleggja sykur sérstaklega. Bent hefur verið á að frekar hefði átt að hækka skattinn meira; það hefði gætt of lítilla áhrifa af honum því hann hefði ekki verið nógu hár. Þetta mun þýða að á meðan hollari matvæli verða dýrari verða óhollari matvæli (Forseti hringir.) ódýrari. Að sjálfsögðu mun það leiða til þess að þeir tekjulægri verða frekar að sætta sig við verri kost en þeir sem tekjuhærri eru.