144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans áðan. Hún var mjög fróðleg og sérstaklega þær hugmyndir sem hv. þingmaður kynnti til sögunnar, sem eru svo sannarlega þess virði að þær séu skoðaðar nánar.

Mig langar til að bregðast aðeins við því sem hún fjallaði um og reyna að draga saman það samfélag sem þetta frumvarp, og reyndar önnur fjármálafrumvörp þessarar ríkisstjórnar, felur í sér. Það er samfélag sem borðar dýran en helst óhollan mat, horfir á sjónvarp fremur en að lesa og hlusta á tónlist, er ekki í því að skrifa bækur eða búa til tónlist og matur er svo dýr að þeir efnaminni hafa aðeins efni á RÚV, sem verður ekki upp á marga fiska vegna þess að sú stofnun er fjársvelt og mun ekki standa sig í samkeppni við erlend niðurhöl því að það verður ekki gert öðruvísi en með framleiðslu á innlendu sjónvarpsefni. Er þetta ekki nokkurn veginn sú framtíðarsýn sem þetta frumvarp boðar?