144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna. Þetta er, eins og við höfum stundum sagt, ekki endilega andsvar heldur meðsvar. Við eigum nú samleið í þeirri gagnrýni sem hér hefur verið á þetta frumvarp.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur lesið gagnrýnina sem fram hefur komið á þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tók mig til og las lungann úr því, þó ekki allt, ég komst ekki yfir það í dag. Þar er mikið varað við því eins og hér hefur verið rakið að láglaunafólkið hefur borið hitann og þungann af þeirri viðreisn sem hefur orðið í samfélaginu eftir hrunið. Almennt kemur það fram, a.m.k. hjá félagasamtökum og stéttarfélögum og öðrum, að þetta sé miður gott frumvarp og að ekki liggi fyrir að þetta muni skila sér til launafólks. Það eru eiginlega allir sammála um það.

Þingmaðurinn talaði um að laxveiði væri ekki þarna inni og annað. Mig langar til þess að viðra þá hugmynd hérna. Hvað með t.d. hópferðabíla? Sumir eru undanskyldir virðisaukaskatti, aðrir ekki. Ríkisstjórnin talaði mikið fyrir því að þetta ætti að auðvelda málið og minnka flækjustigið. Þó að mörg okkar sjáum það ekki þá halda þeir því fram að minna verði dregið undan. Væri skynsamlegt að leggja virðisaukaskatt á alla hópferðaumferð, þar á meðal almenningssamgöngur, til þess að minnka skattundanskot og veita svo (Forseti hringir.) frekar fjármuni til almenningssamgangna í formi styrkja en (Forseti hringir.) að hafa hina og þessa undanskilda virðisaukaskatti?