144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[22:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Frú forseti. Við erum hér í 2. umr. um tekjufrumvarp fjárlaga, nánar tiltekið frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta).

Virðulegi forseti. Umræðan hér í dag hefur verið með ágætum. Það er freistandi í upphafi ræðu að fara svona almennt yfir fjárlög. Forsendur fjárlaga bíða umræðu og svo útgjaldahliðin í kjölfar þeirrar umræðu sem fram fer hér um tekjuhliðina.

Áhrif ríkisfjármála á hagkerfið eru víðtæk og í umræðunni í dag hafa speglast áform um tekjuöflun og útgjöld ríkisins og áform um skuldir eða skuldsetningu ríkisins. Áhrifin birtast í rekstri og efnahag einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Ríkisfjármálin eru þannig mikilvægt hagstjórnartæki og hafa áhrif á verðlag, á neyslu, á framboð og eftirspurn, á atvinnu og þróun hagvaxtar og á flestalla þætti sem móta okkar efnahag.

Þannig hefur ríkisfjármálastefnan, og samspil hennar og hagvaxtar, áhrif á okkur öll og mikilvægt er að stefnan sé skýr. Í fjármálastefnunni birtast fyrirætlanir og áætlanir ríkisstjórnarinnar. Það hefur ekkert farið fram hjá okkur sem höfum hlustað á umræðuna hér í dag hver vilji ríkisstjórnarinnar er. Þegar í upphafi og í ríkisstjórnarsáttmála var lagt upp með að vinna að skilvirkara og einfaldara skattkerfi, létta skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja og ná þannig fram hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta, ná fram kjarabótum með öðrum orðum. Jafnframt var lagt upp með að ná fram kerfisbreytingum til einföldunar fyrir atvinnulífið þannig að það hvetji til fjárfestinga, nýsköpunar og atvinnusköpunar.

Segja má að ríkisstjórnin hafi stigið lítil en stefnubreytandi skref í fyrstu fjárlögunum 2014, þar sem boðaður var afgangur þótt lítill væri, tæpur milljarður, sem rættist þó úr þegar líða tók á árið og forsendur breyttust. Það sem að mínu viti var mikilvægast þá var að stöðva skuldasöfnun og skila afgangi. En um leið voru stigin skref í átt að skattalækkunarferli sem birtist í ýmsum sköttum eins og tekjuskatti þar sem miðþrepið var lækkað, frítekjumark á fjármagnstekjuskatt var hækkað, stimpilgjöld voru einfölduð, svo að eitthvað sé nefnt.

Nú má segja að boðaðar hafi verið róttækari breytingar á tekjuhliðinni og það birtist í kerfisbreytingu og einföldun á virðisaukaskattskerfinu. Þá er gríðarmikilvægt skref stigið fyrir atvinnulífið — fyrir alla, vil ég leyfa mér að segja, virðulegi forseti — í afnámi almenna vörugjaldsins. Það er að heyra á umræðunni hér í dag, í máli hv. þingmanna, að allir séu mjög sáttir við þann þátt í frumvarpinu. Það er sem sagt haldið áfram á leið skattalækkana, sem eykur ráðstöfunartekjur fólks. Jafnvæginu er síðan haldið í gegnum agann útgjaldamegin og stöðugleikanum þannig við haldið. Og ég tel afar mikilvægt, virðulegi forseti, að við horfum til agans á útgjaldahliðinni.

Fram kom við framlagningu frumvarpsins og boðaðra aðgerða að virðisaukaskattskerfið hefði gefið eftir sem skattstofn á undanliðnum áratug. Þar var athyglisvert að þróunin var um margt óháð hagsveiflum, þ.e. að ekki hefur verið sú fylgni á milli hagsveiflunnar og virðisaukans sem ætla mætti. Þannig hefur vægi skattsins af heildarskatttekjum ríkissjóðs lækkað úr 35% í 29% frá 2006 fram til 2013 eða um 6 prósentustig. Þetta má meðal annars rekja til of mikils bils á milli þrepa. Þessi eftirgjöf virðisaukaskattskerfisins kemur vel fram í tveimur skýrslum — önnur er frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hin er óbirt samanburðarskýrsla frá OECD — sem voru lagðar til grundvallar í vinnu stýrihóps að skattkerfisbreytingum sem við sáum í þessu frumvarpi og er vitnað til í nefndaráliti sem framsögumaður, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, fór vel yfir fyrr í dag. Ég ætla að koma niður í því áliti svona til upprifjunar, með leyfi forseta. Þar segir á bls. 3:

„Þær meginniðurstöður koma fram í skýrslunni að lækkun virðisaukaskattsþrepa hafi í flestum tilvikum sem voru til skoðunar haft hlutfallslega stigvaxandi áhrif þegar litið sé til tekna og eyðslu heimila. Þrátt fyrir það bendir skýrslan til þess að lækkun skattþrepa sé verulega óskilvirkt tæki þegar kemur að því að rétta þeim heimilum hjálparhönd sem eru tekju- og eignalægri þar sem stór hluti niðurgreiðslu sem felst í lækkun skattþrepa kemur þeim til góða sem ekki þurfa á því halda í eins ríkum mæli.“

Það er því ekki einvörðungu það að virðisaukaskattskerfið hafi gefið eftir sem skattstofn heldur kemur jafnframt fram í þessari skýrslu að það sé óskilvirkt tæki til tekjujöfnunar og það sé óskilvirkt til að ná fram félagslegum markmiðum. Þessar tvær skýrslur voru hafðar til hliðsjónar af stýrihópi sem vann að þessum breytingum ásamt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Ef ég vík að gagnrýninni sem kom einkum fram í 1. umr. þá var það helst að þetta kæmi verst niður á tekjulægstu hópunum. Það var um leið viðfangsefni hv. nefndar að ganga úr skugga um að þetta mundi tryggja kjarabót til allra tekjuhópa. Og af því að talað var um það í umræðum hér fyrr í dag að framsóknarmenn hafi gert fyrirvara, þá fólst fyrirvarinn einmitt í því að það yrði gaumgæft að þetta mundi sannarlega, eins og boðað er í frumvarpinu, auka ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa. Markmiðin voru skýr að því leyti og ekki bara að ráðstöfunartekjur ættu að aukast, þ.e. allra tekjuhópa, heldur ættu verðlagsáhrifin að vera jákvæð. Um þetta var deilt hart í 1. umr. og þess vegna var þetta mikilvægt verkefni hv. nefndar, og mikilvægt að tryggja að um raunverulegar kjarabætur væri að ræða fyrir alla tekjuhópana um leið og unnið væri að skilvirkni og einföldun kerfisins.

Skilvirknin — hér hefur verið rætt um bil á milli þrepa. Auðvitað er óæskilegur hvati fólginn í því ef bilið á milli þrepa er breitt. Þá er tilhneiging til að reyna að færa, ef kostur er, vöruflokka úr efra þrepi í neðra þrep, og þá skilar skatturinn sér ekki sem skyldi. Ríkissjóður er samkvæmt frumvarpinu í það heila að afsala sér tekjum og skilja eftir í hagkerfinu. Auðvitað er eðlilegt að fara vel yfir það hvort þessar breytingar og þær tekjur sem ríkissjóður skilur eftir skili sér til allra. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór vel yfir það í inngangsræðu og nefndaráliti og ég ætla að fá að víkja að nefndarálitinu öðru sinni í minni ræðu, með leyfi forseta. Á bls. 2 segir:

„Verði frumvarpið að lögum ásamt þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til munu ráðstöfunartekjur neytenda batna um 6,2 milljarða kr. þrátt fyrir hækkun neðra þrepsins. Lækkun efra þreps virðisaukans skilar neytendum 7,5 milljörðum kr., niðurfelling almennra vörugjalda skilar 6,5 milljörðum kr.“

Þetta eina prósentustig — sem er nú búið að vera svona pólitískt, leyfi ég mér að segja, alltaf verið að hæðast að — gerir að verkum að lækkun efra þrepsins jafnast á við hækkun í neðra þrepi. Við erum að tala um 7,5 milljarða, sem skildir eru eftir handa neytendum og hækkun neðra þrepsins eru 8,8 milljarðar. Síðan kemur vörugjaldið, almenna vörugjaldið, afnám þess, öllum til góða.

Það var auðvitað mjög mikilvægt að fara yfir þetta og skoða dæmi, gefa sér tíma í að fara vel yfir umsagnir og hlusta á þá gesti sem komu fyrir nefndina.

Þá er verið að bæta í barnabætur um 1 milljarði. Það er eðli bóta og skatta að þeir virka eins og sjálfvirkir sveiflujafnarar í hagkerfinu. Þegar betur árar eiga bætur að lækka og það er jákvætt. En þessari gagnrýni, sem helst var á það að neðra þrepið væri að hækka og talið að það mundi koma harðast niður á tekjulægri hópum, var þannig snúið við að verið væri að fjármagna vörugjaldið með hækkun neðra þrepsins. Ég lít á þetta algjörlega hinum megin frá. Vörugjaldið gagnast öllum og má miklu frekar horfa á það sem mótvægi við hækkun neðra þreps og þann ávinning sem fæst með því.

Samkvæmt þeim tölum sem við höfum verið að skoða þá er það enn frekar tryggt að ráðstöfunartekjur allra hópa munu aukast og verðlag mun lækka; jákvæð áhrif um 0,35%.

Ýmislegt annað kom auðvitað fram og ýmsir hópar komu fyrir nefndina. Í umsögnum og heimsóknum gesta komu fram fjölmargar mjög góðar ábendingar. Meðal annars komu fram áhyggjur af því að tekjulægstu hóparnir mundu ekki njóta skattalækkunarinnar í sama mæli og þeir tekjuhærri, aðallega frá launþegahreyfingunni og það er skiljanlegt. Þess vegna var lögð mikil áhersla á að ganga úr skugga um það eins og frekast er unnt. Það hefur komið fram hér í umræðunni að við höfum ekki annað við að styðjast en þær upplýsingar sem koma frá ráðuneyti og Hagstofunni og samkvæmt þeim gögnum á það að vera tryggt.

Talið var að einföldunin væri ekki sýnileg og ekki nægilega langt gengið í því að breikka stofninn. Frá inntakinu hefur ekki verið hnikað en tekið tillit til þeirra fjölmörgu ábendinga sem komu fyrir nefndina. Skattstofninn hefur verið breikkaður enn frekar og það ekki síst fyrir mjög jákvæðar umsagnir og tilstuðlan þeirra sem komu hér fyrir hönd ferðaþjónustuaðila og það er vel; alls staðar þar sem við getum fækkað undanþágum, sem gata kerfið, það er ekki alltaf auðvelt. Ég hef til að mynda mikla samúð með íþróttahreyfingunni þar sem mikil starfsemi hvílir á herðum sjálfboðaliða.

Virðulegi forseti. Það verður að segjast að þessar umsagnir voru mjög gagnlegar og breytingarnar unnar samhliða samvinnu við ráðuneytið og með hliðsjón af þessum ábendingum. Að þessu sögðu eru heildaráhrif frumvarpsins nú þau að ráðstöfunartekjur neytenda aukast um 6,8 milljarða, og það er sérlega gleðilegt, auk þess sem áætlað er að verðlagsáhrifin verði jákvæð. Í mínum huga er það hvað mikilvægast og einnig það að neðra þrep skattsins verður eftir sem áður það lægsta á Norðurlöndum, af því að við höfum verið með samanburð við það sem þar tíðkast.

Í umræðunni hefur verið komið inn á þann mikla ójöfnuð sem skapaðist hér á árunum 2005–2007. Það var auðvitað mjög slæm þróun, ég tek undir það, en sem betur fer var það að mestu leyti froða sem hvarf og jöfnuður hefur að miklu leyti náðst til baka. Yfir það fór meðal annars Ásmundur Stefánsson í ágætisræðu á þingi Alþýðusambands Íslands, mjög athyglisvert innlegg þar.

Ég vil í lokin hrósa bæði meiri og minni hluta fyrir góða vinnu í nefndinni. Það er afar mikilvægt að þær breytingar sem eru boðaðar nái í gegn og skili sér með þeim hætti sem ætlað er og ég hef fulla trú á því að svo verði. Ýmsir hópar aðrir gáfu umsögn, ég nefndi íþróttahreyfinguna og bókaútgáfan hefur verið nefnd hér og við fengum bókaútgefendur á fund nefndarinnar. Ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þeir gáfu okkur þær bestu upplýsingar sem hægt er að hafa og ég deili þeim áhyggjum af bókaútgáfu. Það er mikil hefð fyrir öflugri bókaútgáfu og það er viðkvæm atvinnugrein. Ég vona að hægt verði að skoða það og bregðast við. Hér eru 15 milljónir í bókasafnssjóð sem duga vart í því tilliti. Ég vona að hægt verði að taka betur tillit til þess. Það hefur verið farið ágætlega yfir það hér í umræðunni.

Fram komu hugmyndir sem finna má í umsögn Samtaka atvinnulífsins varðandi það að setja föt og skó, sem við þurfum jú öll að nota, í neðra þrep. Ég er hrifinn af þeirri hugmynd. Mér finnst að það eigi að skoðast í framhaldinu. Jafnframt hefur það komið fram í umræðunni að markaðsform verslunar sé þannig að ekki treysti allir því að þessar lækkanir skili sér út í verðlagið. Það er skiljanlegt að þær áhyggjur séu til staðar. En um leið vil ég taka undir lokaorð í nefndaráliti meiri hlutans þar sem talað er um að það sé mjög mikilvægt að fylgja því eftir að þessar skattalækkanir skili sér út í verðlagið.