144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að trúa hv. þingmanni fyrir því að ég er búinn að gleyma seinni spurningunni hjá mér. Ég ætla í sjálfu sér ekki að vera að jagast við hv. þingmann heldur frekar að hrósa honum.

Í fyrsta lagi fyrir að segja hug sinn varðandi þetta mál sem hér kom óforvarandis inn í umræðuna um innflutning á landbúnaðarvörum. Hann er kjarkmikill maður að segja þetta.

Í öðru lagi ætla ég líka að hrósa honum fyrir að vera þó einn af tveimur framsóknarmönnum sem komu hingað í þennan stól og tóku alla vega þátt í umræðunni. Hinir hefðu heldur betur mátt gera það af meiri krafti.

Í þriðja lagi ætla ég að hrósa honum fyrir það að tilheyra þeim helmingi af þingflokki framsóknarmanna sem er samkvæmur sjálfum sér.

Ég minnist þess þegar ég fór kannski með fullt til miklum höggþunga á hv. þingmann, ég var dapur þann dag út af afstöðunni í matarskattinum, að þá sagði hv. þingmaður mér það bara, ég skildi hann þannig í 1. umr., að hann væri bara sammála breytingunum. Það er engin furða þó að hann séð glaður yfir þessu. Það breytir ekki hinu að þetta leggur þungar byrðar á hendur (Forseti hringir.) lægst launaða fólksins. Þetta er sömuleiðis erfitt fyrir (Forseti hringir.) bændur.