144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um nauðsyn þess að gera fráviksgreiningu á þeim útreikningum sem sýndir hafa verið í nefndinni um það hvernig hækkun matarskattsins kemur niður á tekjuhópum. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt. Það var að vísu kallað fram í af hv. þm. Pétri H. Blöndal að hann hefði svarað þeirri ósk í dag. Ég eins og hv. þingmaður heyrði það ekki. En hins vegar var ég hér í dag þegar hv. þm. Frosti Sigurjónsson flutti sína merku og málefnalegu framsögu og það kom auðvitað skýrt fram í máli hans, sem síðar reyndist vera uppistaðan í máli hv. þm. Willum Þórs Þórssonar síðar í dag, að það sem skipti öllu máli var að verðlagsákvæðin af t.d. afnámi vörugjaldanna skilaði sér út í verðlagið. Hv. þingmaður var spurður hvort hann væri viss um að það mundi gerast og þá svaraði hann af einlægni síns framsóknarhjarta: Þar er efinn. Það er akkúrat mergurinn málsins.

Sá maður sem ber málið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur ekki sömu fjallgrimmu vissu fyrir því eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson og ég hef miklar efasemdir um það. Þess vegna tel ég að það sé algert úrslitaatriði áður en menn ljúka þessu máli að farið verði í slíka greiningu.

Síðan af því að hv. þingmaður kemur úr Norðausturkjördæminu, þaðan sem koma með tölugleggsta fólki sem situr hér í þingsölum, þá langar mig til að spyrja hana hvort hún hafi leitt hugann að þeirri sniðugu tillögu sem ég tel eina bestu hugmyndina sem hefur dottið út úr þingmönnunum í þessari umræðu og hraut af vörum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdótur um kvótann. Ég tel að þar sé komin sérlega fín leið til að leiðbeina bæði framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum um hvar á að taka tekjur til að bæta innviðina. Hvað segir hv. þingmaður um það? Gengur þetta ekki talnalega upp?