144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að vita að það er gott og talnaglöggt fólk í Norðausturkjördæmi, ég ætla ekki að draga það í efa. Ég þakka fyrirspurnina eða andsvarið.

Ég vil ítreka enn og aftur að ég hef trú á því, þrátt fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi svarað því áðan að einhverju leyti þá kemur fram í áliti minni hlutans að það hafi ekki verið gerðar fráviksgreiningar sem ég tel afar mikilvægt að gera. Auðvitað á nefndin að kalla eftir því og fá það inn til sín þannig að það liggi fyrir.

Af því að hv. þingmaður nefndi framsóknarhjartað kemur þetta fram í niðurlagi álits þeirra úr meiri hlutanum þar sem þeir hvetja okkur öll til að fylgja því nú eftir og sjá til þess að þessi úrræði skili sér, þannig að það er efi, það er alveg ljóst. Og það er auðvitað ekki gott að sá efi sé til staðar. Hann er til staðar hjá ansi mörgum sem hafa skilað áliti um þetta mál svo að það er ekki gott.

Ég var ekki svo lánsöm að heyra ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur en þetta er alveg þess vert að skoða og við erum auðvitað að vonast til þess að við getum sett af stað eitthvað í því að sjá hvað þetta gæti gert fyrir okkur og hvort það er yfir höfuð skynsamlegt. Það er eitt af því sem þarf að fara í gegnum þannig að ég mundi alla vega ekki setja mig upp á móti því að það væri skoðað, hvort sem það er kvóti á fisk eða í landbúnaði eða eitthvað slíkt er það þess vert að líta eftir.