144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta gagnmerka svar. Enn og aftur kem ég að upphafi máls míns áðan, þ.e. nauðsyn þess að gera fráviksgreiningar á útreikningum sem meiri hlutinn leggur fram. Ég hef ekki mikla trú á þeim en ég er eins og Tómas, ég þarf að leggja höndina í sárið til að trúa, og síst ætla ég að halda því fram að menn séu að reyna að blekkja, ég held að þetta hafi verið unnið af gríðarlega miklum hraða.

Svo vek ég eftirtekt á því að það hefur komið fram í umræðunni, sérstaklega af hálfu beggja þingmanna framsóknarmanna sem hafa talað hér í dag og vísa í gögn Hagstofunnar að það sé ekki hægt að byggja á neinu öðru. Ég er algerlega ósammála því. Ég held að það sé hægt að byggja á frekari gögnum. Til dæmis hefur það komið fram í dag að Rannsóknarstofnun um fjármálalæsi sendi nefndinni gögn byggð á 10 þúsund fjölskyldum og þar kemur í ljós að tekjulægstu fjölskyldurnar eyða miklu hærra hlutfalli en þær tekjuhæstu. Undirstrikar þetta ekki nauðsyn þess að farið sé dýpra í málið?