144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum heyrt svona sögur eins og hv. þingmaður fór hér með. Ég er með eina sambærilega, hún varðar fyrirtæki sem átti í samskiptum við fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu. Ég veit að margir þingmenn þekkja það frá verktökum og einstaklingum að þeir segja farir sínar misjafnar í samskiptum sínum við þessi fyrirtæki en maður hefur ekki haft það svart á hvítu hvernig dæmið stendur.

Þannig háttar til í þessu máli að tiltölulega öflugt jarðvinnufyrirtæki fékk á sig dóm út af lítilli skuld og þurfti að skila inn tækjum til Lýsingar. Um er að ræða 11 stór vinnutæki og einn fólksbíl. Mat Lýsingar á þessum tækjum var um 46 milljónir. Viðkomandi gerði athugasemd við Lýsingu um þetta og það var farið með þessi tæki á nauðungaruppboð þar sem þau fóru á 73 milljónir. Markaðsvirði tækjanna samkvæmt mati löggildra sala á svona tækjum á markaði er tæpar 120 milljónir. Þetta er mjög sláandi dæmi.

Þetta hefur haft nokkurn aðdraganda. Ég hef gert ítrekaðar tilraunir síðustu tíu daga til að ná sambandi við forustumenn Lýsingar til að fá á þessu skýringar. Satt best að segja hef ég engin svör fengið þrátt fyrir að hafa talað þar við fleiri en einn starfsmann, lagt inn skilaboð og sent tölvupósta til að ítreka mál mitt.

Þetta sama fyrirtæki er núna til umfjöllunar í bréfi frá Samtökum iðnaðarins hjá Fjármálaeftirlitinu sem ég mun leita til með þetta mál. Þar er líka út af dómi sem á fyrirtækið féll verið að kvarta yfir því að það lætur dóminn sem nær yfir sambærileg mál ekki ganga yfir hjá öðrum. Samtök iðnaðarins hafa reynt að ná sambandi við fyrirtækið og fá á þessu skýringar, en það eru engin svör.

Ég spyr, virðulegi forseti: Ef það er ekki vörn í lögum fyrir samborgara okkar, (Forseti hringir.) fyrirtæki og einstaklinga, í málum sem þessum er eitthvað brogað í löggjöfinni. Ég vona að þetta séu dæmi sem (Forseti hringir.) Fjármálaeftirlitið sjái ástæðu til að skoða betur.