144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að taka upp hér þá staðreynd að svo virðist sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn áformi að leggja niður starfsemi Bankasýslu ríkisins og færa eignarhald og allt sem tengist meðferð ríkisins á eign í bönkum og fjármálafyrirtækjum inn í fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þess sér ekki stað að tryggðar verði fjárveitingar til reksturs Bankasýslunnar á næsta ári. Vissulega gerðu lögin ráð fyrir því að hún starfaði um fimm ára skeið en menn hljóta að meta það út frá aðstæðum eins og þær eru þegar að þeim tímamótum er komið hvort það sé tímabært og skynsamlegt að leggja starfsemina niður og fara með eignarhald ríkisins á bönkum í gamla farið, inn í fjármála- og efnahagsráðuneytið. Það er þeim mun meira álitamál nú sem sú skipan er innan Stjórnarráðsins að fjármála- og efnahagsráðuneytið er jafnframt ráðuneyti fjármálamarkaðarins og hefur þar af leiðandi eftirlit með fjármálamarkaðnum með höndum.

Það er orðið nokkuð vandasamt að halda á því að vera annars vegar eigandi að stærsta banka landsins og minni hlutum í hinum stóru bönkunum og ýmist meiri hluta eða verulegum hluta í einum fimm sparisjóðum en hafa jafnframt eftirlit með þeim. Falli lögin um Bankasýslu ríkisins úr gildi eða verði hætt að starfa samkvæmt þeim hverfur sú faglega skipaða stjórn sem hefur verið yfir Bankasýslunni og það fyrirkomulag hverfur sem þar er búið um í lögum, að óháð valnefnd skuli tilnefna fulltrúa ríkisins í stjórnir banka og sparisjóða í bankaráði. Það verður þá fjármálaráðherra einn sem fær þetta vald án þess að nokkur valnefnd komi við sögu. Til hefur staðið að undirbúa sölu, a.m.k. á einhverjum af eignarhlutum ríkisins. Það hlutverk er í dag lögum samkvæmt hjá Bankasýslu ríkisins sem fagstofnunar á þessu sviði. Á þetta nú allt að færast í gamla farið án nokkurra armslengdarsjónarmiða, inn í ráðuneytið án þess að mér sé kunnugt um að fjármálaráðuneytið hafi á nokkurn hátt breytt skipulagi (Forseti hringir.) sínu eða búið sig undir að fara með þetta eigandahlutverk? Ég tel að það sé óumflýjanlegt, (Forseti hringir.) herra forseti, að Alþingi ræði þetta áður en við stöndum frammi fyrir gerðum hlut.