144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það gefst ekki tími til að leiðrétta allt sem komið hefur fram hjá hv. stjórnarandstöðu en ég vildi þó gera að umtalsefni eitt sem hefur komið fram í fjölmiðlum, nánar tiltekið í Ríkisútvarpinu, frétt bæði í gærkvöldi og kvöldið þar á undan. Almennt horfi ég ekki á fréttir Ríkisútvarpsins en ég fékk útskrift þar sem segir að ég hafi ekki viljað fara í viðtal. Það rétta er að á mánudaginn hafði samband við mig fréttamaður frá Ríkisútvarpinu og ég sagði honum að ef hann fengi ekki menntamálaráðherrann, sem mér finnst eðlilegt, mundi ég koma í viðtal við hann á þriðjudeginum.

Reyndar átti ég samtal við forsvarsmenn Kastljóss um að koma á þriðjudeginum til að ræða nákvæmlega það mál sem Ríkisútvarpið hafði mikinn áhuga á en svo vill til að konan mín á afmæli einu sinni ári sem var í gær og þar sem ég hef ekki íþyngt fjölskyldu minni með samveru undanfarnar vikur bað ég um að þá yrði það tekið fyrr, þá gæti ég mætt, annars gæti ég komið einhvern næstu daga. Það var hins vegar sagt bæði kvöldin að ég hefði ekki viljað tala við Ríkisútvarpið út af þessu máli.

Kannski er það smámál en það sem er kannski alvarlegra er að það er fullyrt að afnotagjöldin hafi verið lögð niður þegar RÚV ohf. var stofnað og tekið útvarpsgjald. Það gjald hefur félagið aldrei fengið óskert. Árin 2005, 2006, 2007, 2008 og 2009 voru meiri útgjöld ríkissjóðs af Ríkisútvarpinu en sem nam útvarpsgjaldinu. Það stendur á pari ef áætlanir ná fram að ganga 2015. Ef allt tímabilið er tekið munar þetta 500 milljónum á verðlagi hvers árs. Ef þetta er uppreiknað á verðlagi ársins 2015 eru útgjöld skattgreiðenda vegna Ríkisútvarpsins 27 milljónum meiri en tekjur af útvarpsgjaldinu.

Ef við skoðum forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í fjárlögunum er lögð gríðarleg áhersla á Ríkisútvarpið eins og var gert (Forseti hringir.) í tíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, en hins vegar (Forseti hringir.) var það í síðustu ríkisstjórn sem útvarpsgjaldið var mun hærri upphæð í skatttekjum en útgjöld til Ríkisútvarpsins, virðulegi forseti.