144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera uppsteyt út af mínútunni, en mig langar að spyrja út í nokkra afmarkaða þætti í fjárlagafrumvarpinu sem við höfum töluvert rætt í nefndinni og ákall er um að bæta. Það varðar skólamálin.

Fyrst eru það dreifnámsskólarnir, hvort við séum með þá trygga í frumvarpinu. Meðal annars eru miklar áhyggjur vegna deildarinnar á Patreksfirði sem telur sig þurfa meira fé. Mig langar að vita hvort formaður fjárlaganefndar telji það vera tryggt.

Síðan er það rannsóknarstyrkurinn hjá Háskólanum á Akureyri. Það hefur komið ítrekað fram að þeir vilja fá hann inn sem rannsóknarmissiri fyrir kennara en ekki heimskautalögfræði. Einnig segir rektor að hann telji að sér sé refsað fyrir aðhald í skólanum. Ég vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hún taki undir það og hvort hún sé tilbúin til að breyta skilyrðinu sem fylgir 30 milljónunum og setja þær eingöngu í rannsóknarmissiri.