144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal vera snögg. Þetta er ekki mikill tími. Varðandi Háskólann á Akureyri sem ég náði ekki að svara áðan þá kemur vel fram í fylgiskjölum við þetta mál að háskólinn fékk 30 milljónir í styrkingu rekstrar á fjáraukalögum, fær 10 milljónir núna í frumvarpinu fyrir 2015, plús 10 milljóna bætingu sem kemur úr menntamálaráðuneytinu og svo fara 20 milljónir beint í heimskautaréttinn. Það er alveg klárt, það eru lögskýringargögn og það stendur.

Ég var ekki búin að heyra af því að Listaháskólinn væri í heilsuspillandi húsnæði þannig að það eru nýjar fréttir fyrir mér. Listaháskólinn er vel rekinn en hefur þurft að takmarka nemendur þar inn, þannig að við stöndum með þeim skóla eins og öðrum.

Varðandi síðustu spurningu þingmannsins þá hefur þetta verið mikið í fjölmiðlum. Ég hef sent formanni Öryrkjabandalagsins skilaboð og sent út póst þar sem ég fer yfir að lækkunin á sér stað vegna þess að áætlanir um verðbólgu voru of háar. Það er verðhjöðnun miðað við þær tillögur sem voru (Forseti hringir.) settar inn í frumvarpið. Vegna þess lækkar þetta (Forseti hringir.) á má segja (Forseti hringir.) náttúrlegan máta.