144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir greinargott nefndarálit og framsöguræðu sem því fylgdi. Ég verð að segja að ég get tekið undir það í öllum meginatriðum í það minnsta og jafnvel meira.

Í upphafi máls síns vék hv. þingmaður að því að afkoma ríkissjóðs hafi verið að batna og að útlit sé fyrir að batinn muni halda áfram árið 2015. Þess vegna séu nú enn þá betri tækifæri en hafa alla vega verið á síðustu árum til að búa vel að íslensku samfélagi.

Mig langar í ljósi þessa að spyrja hv. þingmann út í það hvernig það komi við hana að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir því að kjaraleiðrétting til lífeyrisþega muni nema 3,5%, en nú hefur meiri hluti hv. fjárlaganefndar boðað að sökum þess að hér hafi verðlagsþróun verið svo hagstæð þurfi ekki að bæta meira en 3%. Hvernig slær þetta hv. þingmann?