144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því að þetta væri í rauninni að gerast. Það er mjög mikilvægt að taka þessa aðgerð inn á milli umræðna og fara vel yfir hana. Það þarf að skoða stöðuna, hvernig þróunin hefur verið. Hækkanirnar eiga að vera þannig að ef verðbólgan er hærri en launavísitalan er bætt eftir verðbólgu. Ef launavísitala er hærri er bætt eftir launavísitölu. Það hafa ekki verið gerðar bætur aftur fyrir sig. Ég tel mjög mikilvægt að þegar við tökum málið inn á milli umræðna þá skoðum við afleiðingar þess að þegar verðbólga hefur hækkað hafa bætur ekki verið hækkaðar, af því að það er ekki gert aftur fyrir. Núna eru engar breytingar fyrir árið 2014, en gerðar þessar breytingar fyrir árið 2015.

Kanna þarf hvort staða þeirra sem eiga að njóta þessara bóta hafi batnað eða versnað við það að breytingin er ekki gerð aftur fyrir sig. Það þarf að skoða það í því samhengi. Hækkun hefur ekki verið gerð þegar verðbólga hefur hækkað og oftast hefur hún nú hækkað í okkar ágæta samfélagi. Nú er hún að lækka frá spám og þá er auðvitað um leið tekið tillit til þess og lækkað inn í árið 2015. Þetta slær auðvitað fólk mjög illa einkum vegna þess að tekjur öryrkja, svo dæmi sé tekið, hafa hækkað um 4,7% samkvæmt samantekt á meðan launavísitala hefur hækkað um 23,5%. Þess vegna slær þetta fólk mjög illa.