144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get sagt það hér að ég sakna hans stundum úr hv. fjárlaganefnd.

Nei, við höfum ekki tekið þetta til umræðu en ég held að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessu máli. Um leið og opnað er fyrir gjaldtöku fyrir námsgögn og aukna gjaldtöku í opinbera framhaldsskólakerfinu er viðbúið að það muni festast í sessi. Óttinn er þá sá að það muni aukast.

Auðvitað þarf þróunarvinna að eiga sér stað á námsgagnasviði eins og annars staðar. Ég skil vandann við það að fara með rafræn námsgögn. En staðan hjá framhaldsskólanemum er þannig að þeir þurfa að greiða umtalsverðar fjárhæðir á hverri önn fyrir námsbækur sem ekki eru rafrænar. Þessu á síðan að bæta við. Nemendur hafa getað skipst á gögnum, keypt sér ódýrari gögn o.s.frv., en þarna er verið að bæta við hreinni gjaldtöku vegna námsgagna. Þetta er prinsippatriði sem ég tel fulla ástæðu til að mótmæla og reyna að brjóta á bak aftur. Ég skil vel að minni hlutinn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd vilji gera það. Ég mun styðja það þegar það frumvarp kemur fram, þá styð ég tillögur minni hlutans hvað það varðar.

Hins vegar þarf ríkissjóður að setja fjármuni í þróun námsgagna á framhaldsskólastigi, ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að það skólastig nýti sér alla þá tækni sem möguleg er. Við megum ekki loka augunum fyrir því, en við skulum ekki heimila í lögum gjaldtöku fyrir námsgögn.