144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Áhyggjur mínar af umræddri gjaldtöku eru mikið til vegna þess að ég held að ef við opnum þessa leið þá verði hún viðvarandi. Ég get ekki ímyndað mér að nokkurn tímann í framtíðinni muni núverandi ríkisstjórn hugsa með sér: Þetta var nú gott tilraunaverkefni, nú skulum við eyða 1,6–1,9 milljörðum í að gera eitthvað sem við hefðum getað gert alla tíð og alveg frá upphafi. Þannig að ég sé þennan þátt málsins einfaldlega ekki sem tilraun. Fyrir utan það að ef maður ætlar að gera tilraun þarf maður að gera hana á fyrirbærinu sem maður er að prófa. Ef við prófum að gera þetta þannig að gjaldið sé tekið af nemendum þá verða niðurstöðurnar af tilrauninni ekki þær sömu og ef ríkið greiddi þetta, meðal annars af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi að nemendur geta deilt gögnum á milli sín. Þeir geta það hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Afritunarverð (Forseti hringir.) virkar ekki, það er meira en að nefna það. Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur (Forseti hringir.) af því og velti fyrir mér hvort hv. fjárlaganefnd ætti ekki að taka þetta upp þar sem þetta er fyrirsjáanlegur kostnaður nema (Forseti hringir.) róttæk breyting eigi að verða á fyrirkomulagi í námsgagnakaupum hér á landi.