144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég held að full ástæða sé til að taka þetta mál upp, gjaldtöku yfir höfuð í helstu stoðum samfélagsins, hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu. Þó að gjaldtaka fyrir rafræn námsgögn sé ekki eins háskaleg og gjaldtaka á einstaklinga í heilbrigðiskerfinu er þetta samt af sama toga.

Það er full ástæða til að tortryggja það þegar hægri stjórnin setur svona fram. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þetta muni fara í þá átt að gjaldtaka af nemendum færist í vöxt. Menn munu spyrja: Hver er munurinn á rafrænum námsgögnum og öðrum námsgögnum? Og þetta fer að flækjast fyrir.

Ég er tilbúin til þess að beita mér fyrir því að við tökum þessa umræðu upp í fjárlaganefnd til að fara yfir þetta, hvort greiða eigi þetta úr ríkissjóði (Forseti hringir.) eða taka gjald af nemendum.