144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekkert að velta hv. þingmanni mikið meira upp úr þessu. Hún var ekki á þingi þegar þessar ákvarðanir voru teknar, en öll sú gagnrýni sem ég nefndi kom strax fram, þetta var algjörlega vitað. Fólk fór í mál og niðurstaðan varð sú í Hæstarétti að þetta væri tímabundinn skattur og menn áttu margir von á því út af sambærilegum dómum annars staðar í álfunni, það var ekki heimilt að taka svona eigna- eða ekknaskatt. Hún hefur komið mér á óvart þessi harka, að bæði Samfylking og Vinstri grænir vilji halda þessu áfram.

Ríkustu Íslendingarnir búa ekki á Íslandi og þeir greiða ekki skatt á Íslandi, þeir geta bara valið. Það komu fram fyrirspurnir í þinginu og kom í ljós að það fólk sem var að greiða þennan skatt var fólk með lágar tekjur. Oft var um að ræða fólk sem gat ekki verið í lífeyrissjóðum, fékk ekki að vera í lífeyrissjóðum á sínum tíma, þurfti að búa sér til annars konar sparnað. Almenna reglan var sú að eldra fólk var að greiða þetta, síðan var því fólki sleppt sem var með algjörlega tryggar eignir sem eru lífeyrisréttindi; það var það fólk sem setti lögin sem hlífði sjálfu sér.

Virðulegi forseti. Af því að ég skildi ekki þetta nýfrjálshyggjutal allt saman, en mér skilst að við séum að fara í eitthvert lágmarksríki og nýfrjálshyggju og hvað þetta er allt saman, ég hef bara ekki hugmynd um þetta en það er allt í lagi.

Nú erum við búin að hækka gríðarlega framlög í heilbrigðismálin. Er það þá nýfrjálshyggja? Meðan vinstri stjórnin var að forgangsraða tók hún verulega á heilbrigðismálum og ýmislegt annað hækkaði verulega. Það er bæði búið að hækka í tölum — þetta er búið að hækka um 20% frá því þessi ríkisstjórn tók við, til dæmis Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri meira — og líka sem hlutfall heilbrigðismála af ríkisútgjöldum, það hefur hækkað frá því á síðasta kjörtímabili. Er þetta í samræmi við nýfrjálshyggjuna? Er þetta partur af nýfrjálshyggjunni, getur hv. þingmaður aðeins upplýst mig um það?