144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Varðandi RÚV er auðvitað ljóst að fjárhagsstaðan er mjög erfið og það hafa verið settir miklir fjármunir í það fyrirtæki. Þegar það er gert að opinberu félagi má velta því fyrir sér, ég veit ekki hvort það er þannig hjá öðrum opinberum hlutafélögum en lífeyrisskuldbindingar fylgdu þessu fyrirtæki sem ohf. Ég veit ekki hvort það er þannig með önnur fyrirtæki sem eru með ohf. en það væri áhugavert að kanna.

Það er í rauninni það sem íþyngir rekstrinum hvað mest. Það er það sem Ríkisútvarpið hefur þurft að taka lán út af, það hefur verið mest íþyngjandi, og þurft að setja inn töluverða fjármuni þess vegna. Það er hins vegar með Ríkisútvarpið eins og aðrar stofnanir að eflaust má taka þar til og lagfæra og gera betur, en ég held að staðan sé orðin þannig að það verður ekki gengið mikið lengra en hefur verið gert. Það er búið að segja upp 105 starfsmönnum frá hruni og það hlýtur að segja sig sjálft að það skekkir töluvert stöðu þess. Það má segja líka að það hafi orðið til þess að til dæmis landsbyggðin hefur ekki neins staðar svæðisútvarp eins og hún hafði áður og Ríkisútvarpið hefur ekki haft möguleika á að koma til móts við það eða sinna starfi sínu almennilega, eins og útvarpsstjóri hefur lýst fyrir okkur að hann mundi vilja gera.

Þessi tilraun sem meiri hlutinn leggur til núna er góðra gjalda verð en það hefur komið fram í máli útvarpsstjóra að hann telji að hann þurfi 19.400 kr., þ.e. allt útvarpsgjaldið, þá muni hann geta staðið undir rekstrinum og gert það sómasamlega. Ég tel enga ástæðu til að efast um það. Ég hef hins vegar gagnrýnt hvernig framlagið er skilyrt og velti (Forseti hringir.) fyrir mér hvort það stenst hreinlega lög að skilyrða slíkt framlag eins og gert er með þessum breytingartillögum.