144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ræður hennar eru alltaf pínulítið frábrugðnar þeim sem maður á að venjast hér að því leyti að hv. þingmaður fer gjarnan út í vinnubrögðin og fyrirkomulagið sem og auðvitað efnið líka. Það var mjög fróðlegt að heyra um það frá hv. þingmanni enda stendur hún að eigin nefndaráliti sem 3. minni hluti hv. fjárlaganefndar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér bætt vinnubrögð hér á bæ, bæði í víðari skilningi gagnvart því hvernig fjárlagafrumvarpið kemur til og hvernig það er síðan meðhöndlað. Sömuleiðis hvernig hægt sé að gera vinnuna skilvirkari og kannski gagnsærri í fjárlaganefndinni sjálfri. Það vill svo til að ég var sjálfur í fjárlaganefnd á sínum tíma, er þar reyndar ekki lengur, og ég man að oft fékk maður gögn á mjög misjöfnu sniði, stundum hreinlega tölur á pappír. Þá þurfti maður að spyrja sérstaklega hvort ekki væri hægt að fá þetta í pósti eða á tölvutæku formi. Jú, þá gat það svo sem komið í hinu og þessu sniðinu.

Núna þegar ég skoða fjárlagafrumvarpið og er að reyna að átta mig á því öllu er ég gjarnan að vinna hreinlega í pdf-skjölum og afrita tölur inn í önnur skjöl og reyna að finna út úr því hvað mér finnist og hvað mér eigi að finnast o.s.frv. Þetta finnst mér allt saman miklu hvimleiðara en það gæti verið. Mér finnst oft eins og Alþingi hafi ekki alveg tileinkað sér tæknina og nútímavinnubrögð þegar kemur að fjárlögum eða reyndar vinnu almennt ef út í það er farið. Ég hefði mikinn áhuga á því að heyra um nánari útfærslur á því sem hv. þingmaður telur að betur megi fara í vinnubrögðum og háttalagi hér á bæ.