144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að við höldum okkur við skatteftirlitið, ég skil það sem svo að þetta séu kannski ekki neinar vísindalegar forsendur, heldur frekar eitthvað sem menn telja að hægt sé að ná í. Ég held að við eigum að fara í þetta strax. Við skulum ná í þessar 3 þús. milljónir. Ég veit ekki hvort við náum því í bótasvikum, en eins og hv. þingmaður nefndi hefur verið mjög gott samstarf innan hv. nefndar og ég held að okkur sé ekki neitt að vanbúnaði að fara bara og sækja þessar 3 þús. milljónir, ég tala nú ekki um ef það er eitthvað meira. Við megum ekki missa af þessu. Það segir sig algjörlega sjálft.

Bótasvik — ég geri nú ráð fyrir að sé frekar hátt, en að við náum í þessa upphæð, ég mun hlusta af athygli á tillögur þess efnis hvernig við getum náð þessu því að þetta eru gríðarlegir fjármunir.

Hv. þingmaður bað um dæmi um aðhald og nefndi meðal annars RÚV, hv. þingmaður vill setja meiri fjármuni í RÚV. Nú hefur RÚV, þvert á fréttir á RÚV, fengið nokkurn veginn allt það sem hefur verið innheimt af útvarpsgjaldinu frá stofnun. Það eru alveg ótrúlegar ranghugmyndir og rangfærslur hjá fréttastofu RÚV og jafnvel hjá hv. þingmönnum um að málum sé öðruvísi farið. Hv. þingmaður segir að það eigi að vera pólitísk ákvörðun um rekstur RÚV. Ég vildi kannski aðeins fá að spyrja hv. þingmann um það.

Nú er stjórn í RÚV og almenna reglan er sú — á Landspítalanum, á Sjúkrahúsinu á Akureyri, í Tryggingastofnun, hvaða stofnun er — að menn fá ákveðna fjármuni og síðan verða menn bara að spila innan fjárhagsrammans. En hér finnst mér hv. þingmaður sem og aðrir vera að tala þannig að í þessu tilfelli, þrátt fyrir að við séum með sérstaka stjórn sem á að reka fyrirtækið RÚV, eigum við þingmenn að fara inn í reksturinn. (Forseti hringir.) Ég vil kannski biðja hv. þingmann að útskýra þetta aðeins betur fyrir sér. Ég gæti (Forseti hringir.) tekið ýmis dæmi, ég tek bara sérstaklega RÚV þegar ég tala um vilja til að setja meiri peninga í viðkomandi rekstur.