144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:27]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Við erum flest sammála um að nauðsynlegt sé að ná samningum við lækna sem allra fyrst og auðvitað viljum við hækka laun lækna eins og flestra annarra stétta. Það er líka rétt hjá honum að íslenskir læknar eru mjög eftirsóttir erlendis og þeir geta fengið mun betur launuð störf þar. Það gildir reyndar líka um fleiri stéttir en lækna.

Því miður höfum við Íslendingar dregist aftur úr í launum miðað við nágrannaþjóðir okkar, það liggur alveg ljóst fyrir. En það breytir því ekki að við verðum að velta því fyrir okkur hvað við getum gengið langt í launahækkunum við einstakar stéttir.

Ef ég man rétt var það í fréttum að læknar hefðu farið fram á 35% eða 36% hækkun, það var launahækkunin sem þeir óskuðu eftir. Við vitum að það mun leiða til þess að aðrar stéttir koma á eftir og óska eftir svipuðum launahækkunum. Þannig hefur þetta verið í gegnum tíðina og þannig verður þetta áfram. Oftast nær hefur það leitt til þess að (Forseti hringir.) verðbólga hefur aukist o.s.frv.

Mín spurning til hv. þingmanns er: Hvað telur hann (Forseti hringir.) að við eigum að ganga langt í því að koma til móts við ósk lækna um 35–36% launahækkun?