144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þar sem honum var heilbrigðisþjónustan og heilbrigðiskerfið hugleikið. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er sú staða sem ég tel vera uppi í allri þessari fjárlagaumræðu, hún birtist í raun í hverri ræðunni hér á fætur annarri, og það er að við erum með lög í landinu. Við erum með skyldur sem settar eru til að mynda á Landspítalann, heilsugæsluna og aðrar heilbrigðisstofnanir í lögum. Síðan erum við með fjárlög. Og mér finnst sú togstreita í raun ekki vera útrædd á þingi, þ.e. þegar við leggjum skyldur á stofnanir með lögum sem síðan geta ekki haldið sig innan fjárheimilda ef þær hyggjast uppfylla þann lagaramma sem þeim er ætlað að uppfylla.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þessa, hvort ekki sé mikilvægt við fjárlagavinnuna að við skilgreinum nákvæmlega hvort ekki sé réttara að beita sér fyrir lagabreytingum ef við ætlum okkur ekki að veita (Forseti hringir.) stofnunum það fé sem þarf til að uppfylla lagarammann.