144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Alltaf er hv. þm. Katrín Jakobsdóttir jafn skynsöm, þetta er nákvæmlega það sem vantar. Það vantar að skilgreina þessa grunnþjónustu. Hún situr einhvers staðar í lögum en menn vita ekki nákvæmlega hver hún er. Ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra að þessu. Það er ekki nein almenn skilgreining á því hver grunnþjónustan í heilbrigðiskerfinu er. En það er rétt hjá þingmanninum að það eru skilgreiningar í lögum um ákveðnar skyldur stofnananna og aðilarnir sem er treyst og eru ráðnir af yfirvöldum til að sinna þessum stöðum koma til fjárlaganefndar með tillögur handa heilbrigðisráðherra um raunverulega fjárþörf en síðan er ekki hlustað.

Þetta þarf klárlega að skilgreina. Þetta á líka við um Ríkisútvarpið sem hefur skyldur samkvæmt lögum sem það getur ekki sinnt miðað við það fjármagn sem því er skammtað.