144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta snýst um heiðarleika. Þetta snýst um að Alþingi sé heiðarlegt í því hvaða skyldur eru til staðar. Ekki að fara einhvers konar svona baktjaldaleið varðandi til dæmis Ríkisútvarpið og segja: Já, já, ókei, við ætlum að lækka útvarpsgjaldið og við ætlum ekki að skila því til ykkar sem þó er tekið inn nema að 70% leyti. Svo eigið þið samt að halda áfram að uppfylla þessar skyldur sem þið hafið alltaf átt að uppfylla samkvæmt lögum.

Þá væri miklu heiðarlegra ef Alþingi segði bara: Nei, nú eru lög um Ríkisútvarpið. Sá maður sem hefur verið treyst af stjórninni, sem er skipuð á Alþingi til að sinna hlutverkinu, segir: Ég get þetta ekki. Ég get þetta ekki eins og þið eruð að skammta mér þetta. Væri þá ekki miklu heiðarlegra að Alþingi segði bara: Nei, heyrðu, þú átt bara ekkert að sinna ákveðnum skyldum lengur? Jú, við skulum halda almannavörnunum en Alþingi verður þá að breyta lagarammanum.

Og við verðum að fara að skilgreina grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins í lögum.