144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hversu vantar mikið, ég veit ekki einu sinni hvað þarf að hækka laun lækna mikið til að þeir sætti sig við ástandið og við lendum ekki í þeim neikvæða spíral að missa starfsfólk út úr læknastéttinni, út úr heilbrigðiskerfinu. Eins og ég nefndi í andsvari við hv. þm. Karl Garðarsson höfum við samningamenn sem eiga að komast að þessu, við höfum landlækni, við höfum þessa yfirmenn heilbrigðiskerfisins og við höfum heilbrigðisráðherra. Þeir verða að komast að þessu og þeir verða að finna lendinguna þannig að við lendum ekki í þessum neikvæða spíral. Þeir hafa fjármunina, starfsfólkið og skylduna að gera það.

Um almenna fjárþörf í heilbrigðiskerfinu veit ég ekki heldur en ég er búinn að undirbúa skjal í samstarfi við starfsmenn nefndarinnar til að kalla eftir nákvæmlega þessari fjárþörf frá yfirmönnum heilbrigðisstofnana. Þær upplýsingar virðist núna ekki vera aðgengilegar í fjárlaganefnd og ég ætla að kalla eftir þeim. Ég mun senda út póstinn á morgun þegar ég fæ netföng þessara aðila og vona að þeir geti svarað mjög fljótt, að svörin liggi (Forseti hringir.) hjá þeim og ég geti fengið þau sem fyrst.