144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hvet hv. þingmann og stjórnarandstöðuna alla til að láta ekki deigan síga. Þessari glímu er ekki lokið. Ríkisstjórninni og stjórnarþingmönnunum er nefnilega ekki alls varnað. Í fyrra leiddi sams konar barátta í þessum sölum til þess að þegar upp var staðið var búið að bæta 3 milljörðum við Landspítalann vegna baráttu hér í þessum sölum og þegar lokafjárlög voru afgreidd var líka skafinn af 2,5 milljarða hali. Það má þakka því að einhvers staðar blundar frækorn skilningsins í hugum stjórnarþingmanna en það þarf menn eins og hv. þingmann og aðra bardagafúsa þingmenn til að vökva það.

Menn hafa velt fyrir sér hvað þurfi að hækka laun lækna mikið. Hv. þingmaður lét gera könnun sem sýndi að 90% þjóðarinnar setja heilbrigðisþjónustuna efst. Önnur könnun sýndi 80% stuðning við það að hækka laun lækna. Hvað þarf að hækka þau mikið? Til jafns við viðmiðunarhópana, það er eðlilegt.

Svo skulum við ekki gleyma því að það eru fleiri sem vinna á spítölunum og hjarta mitt hrærist líka til samúðar með þeim sem eru að vinna þar við ræstingastörf (Forseti hringir.) og fá bara 214 þús. kr. greiddar á mánuði. (Forseti hringir.) Og ekki einu sinni frí þó að þeir vinni í 12 daga samfleytt.