144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:27]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lífeyrisskuldbindingar eru í rauninni bara skuldir sem þarf að greiða eins og hverjar aðrar skuldir í mínum huga. Sú ákvörðun var tekin á sínum tíma að hafa þær þarna inni og ég geri ekkert athugasemdir við það. Það verður að reka þessa stofnun og framlög til hennar þurfa að vera í samræmi við þær skuldbindingar sem hún hefur.

Auðvitað er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er alveg gífurlega stór baggi á einu fjölmiðlafyrirtæki að þurfa að standa í að greiða af þessu og auðvitað ber að líta til þess þegar kemur að framlögum til RÚV. En að aflétta sérstaklega þessum skuldbindingum, ég er ekki viss um að það sé kannski rétta leiðin en það þarf vissulega að taka tillit til þeirra skuldbindinga.