144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:32]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil reyna að varpa eilitlu ljósi á störfin í fjárlaganefnd á þessu hausti og kannski nálgast umræðuna með öðrum hætti en þeir sem á undan hafa talað. Fjárlaganefnd hefur setið á fjölmörgum fundum eftir að frumvarpið kom fram og þar safnast saman heilmikið efni sem rétt er að draga saman og gera grein fyrir og það hef ég reynt að gera samviskusamlega í starfi nefndarinnar.

Ég vil í upphafi þakka bæði meiri hluta og minni hluta í fjárlaganefnd vinnuna í haust og minni hlutanum fyrir nefndarálit þeirra sem þau hafa flutt hér í dag. Þó að það sé margt í þeim sem mér finnst gott þá er ég nú ósammála mjög mörgu sem þar stendur en svona er þetta bara. En ég vil ekkert síður þakka þeim sem komu til nefndarinnar, höfðu fyrir því að heimsækja hana, komu um langan veg. Við tókum á móti fulltrúum 43 sveitarfélaga og fimm landshlutasamtaka. Mér telst til að nefndin hafi tekið á móti ríflega 100 gestum og til viðbótar hafa þingmenn að sjálfsögðu átt þess kost að heimsækja eða hitta sveitarstjórnarfólk í kjördæmum sínum í kjördæmaviku og þar á ofan haldið fjölmarga almenna fundi í kjördæmunum um ríkisfjármál og um önnur þingmál. Mig langar að segja við þessa umræðu að fyrir mig sem er nýlega kjörinn á Alþingi að þótt ég hafi talið mig þekkja ágætlega vel til starfa löggjafarsamkomunnar var nýtt að upplifa hérna megin frá hversu mikil áhrif almenningur í landinu hefur á lagasetningu og hversu stórt hlutverk hann spilar við vinnslu þingmála. Ég tel að kannski sé ekki öllum ljóst hve greiðan aðgang almenningur hefur til að hafa raunveruleg áhrif á gang mála. Mér finnst að við mættum halda því mun meira á lofti. Þannig er það sannarlega með fjárlagafrumvarpið, þar koma fram mörg gild sjónarmið sem verður síðan að taka tillit til og ég lít á að það sé að mörgu leyti hlutverk fjárlaganefndar hverju sinni að hlusta á þær raddir og reyna að bregðast við með tækjum sínum og tólum.

Ef ég dreg saman þau málefni sem sveitarfélögin og landshlutasamtökin hafa dregið fram í minnisblöðum sínum og erindum til fjárlaganefndar — og erindi fjárlaganefndar voru einhvern tíma þegar ég gáði á 1.703 blaðsíðum, ég ætla alls ekki að halda því fram að ég hafi lesið þau öll en svona 80–90% af þeim — þá kemur það okkur í þessum sal kannski ekki á óvart hvaða málefni eru þar efst á baugi. Ég ætla að rekja mig eilítið niður þann lista yfir hvaða málefni menn hafa sett efst á blað og ég ætla að byrja á fjarskiptamálum.

Af 43 sveitarfélögum sem fyrir fjárlaganefnd komu og sendu erindi fjölluðu 24 eða 25 sérstaklega um fjarskiptamál. Við höfum áður tekið umræðu um fjarskiptamál á þessu þingi og okkur er flestum ljóst hvert ástand þeirra mála er almennt. Fjarskiptamál í þessum skilningi fjalla fyrst og fremst um internettengingar og háhraðatengingar.

Það blasir þannig við mér, en ég hef fengið það hlutverk að vinna að fjarskiptamálum á undanförnum mánuðum, að það sé offjárfesting í innviðum fjarskipta á suðvesturhorninu meðan landsbyggðin hefur setið algerlega eftir. Hún er núna með grunnkerfi fjarskipta sem er orðið ákaflega dapurt og annar engan veginn þeim kröfum sem almenningur gerir til slíkra hluta í dag. Þess vegna eru kröfur og ábendingar um að vinna að þessum málum lagðar fyrir nefndina í svo ríkum mæli.

Stjórnvöld hafa ákaflega takmarkaða möguleika á að stíga inn á fjarskiptamarkaðinn og beita sér þar. Það er ekki þannig að ríkið muni leggja ljósleiðara. Fjarskiptamarkaðurinn er bundinn miklu regluverki og markaðsskipulagi sem hann verður að beygja sig undir og því er nokkuð flókið að nálgast viðfangsefnið. En það er algerlega ljóst að fara verður í miklar fjárfestingar á næstu árum ef ná á markmiðum um alvöruháhraðatengingar og þá verður að virkja marga aðila saman í þeim efnum.

Þegar ég tala um grunnkerfi fjarskipta á ég fyrst og fremst við þann hluta fjarskiptanna sem flytur merkin sjálf, þ.e. lagnirnar. Ég á ekki við endabúnaðinn sem í mínum huga markaðsfyrirtækin ættu að eiga og síðan að selja neytendunum fjarskiptavörurnar. Það er grunnkerfið sem við horfum til að þurfi að endurbæta og byggja upp. Þar hafa sveitarfélög stigið inn á sviðið og á árum áður hefur ríkið líka komið þar að og lagðir hafa verið fram verulegir fjármunir til fjarskiptamála í gegnum fjarskiptaáætlanir. En nú er komið að ákveðnum vatnaskilum í þeim efnum og við verðum að vinna málið að mínu viti með miklu skýrari markmið en við höfum getað mörg undanfarin ár.

Að þessum málum hefur verið unnið á undanförnum mánuðum af nokkurri fyrirhyggju og ég ætla að leitast við að rekja það eilítið áður en ég geri grein fyrir tillögu meiri hluta fjárlaganefndar til að bregðast við þessum erindum. Í fyrsta lagi er það að segja að fjarskipti eru ekki á ábyrgð sveitarfélaga eða ríkis en það er hins vegar ljóst að mörg sveitarfélög hafa þegar fjárfest í grunnkerfi fjarskipta, þ.e. ljósleiðaralögnum. Í þeim efnum eru miklar reglur sem þarf að huga að og þess vegna var það fyrsta verk í aðkomu innanríkisráðherra á fjarskiptamarkaði að óska eftir því að Póst- og fjarskiptastofnun gerði ákveðna greiningu á regluverkinu og ynni leiðbeiningar um hvernig sveitarfélög og hið opinbera ættu að haga sér í þessum efnum. Póst- og fjarskiptastofnun vann þær leiðbeiningar og í skýrslu sem stofnunin hefur nýlega birt á vef sínum er í meginatriðum fjallað um lagaumhverfið sem skoða þarf vegna ríkisaðstoðar og skilyrði sem þarf að uppfylla svo ríkisaðstoð teljist ekki brjóta í bága við ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins. Í viðaukum við þá skýrslu er síðan að finna gátlista um upplýsingar um stöðu og þróun á íslenskum fjarskiptamarkaði. Þar er að finna fyrirmynd að samtengissamningum, almennar upplýsingar um búnað og tæki og ýmsar hagnýtar upplýsingar sem því tengjast. Stefnt er að því að fylgja þessum leiðbeiningum úr hlaði á næstu vikum og mánuðum með kynningum fyrir sveitarstjórnarfólk í hverjum landshluta. Leiðbeiningarnar eiga að styðja við allt ferlið sem lýtur að margþættum undirbúningi og framkvæmd ljósleiðaraframkvæmda, ekki síst á vegum sveitarfélaga. Í samræmi við ályktun sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor, byggðaáætlun, þar sem lögð var sérstök áhersla á samskiptamál og leiðbeiningarhlutverk stjórnvalda, hefur verið ákveðið að verja fjármunum úr byggðamálum til að keyra þetta leiðbeiningaverkefni á næstu árum og halda þannig utan um sveitarfélögin. Ég bendi fólki á að kynna sér hvernig verður nánar að þessu staðið á vef Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í öðru lagi hefur verið unnið í starfshópi er fjallar um alþjónustu og alþjónustuhópurinn hefur haft það verkefni að huga að framtíð uppbyggingar í fjarskiptainnviðum. Meginviðfangsefni okkar í þeim hópi, en ég stýri honum ásamt hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, hefur verið að greina með sama hætti hvernig við getum breytt lögum sem varða alþjónustu til að laða fram hraðari framkvæmdir á þessu sviði og byggja upp tillögur og skila greinargerð um hvernig við sjáum fyrir okkur að hér geti orðið alvöruátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða á næstu árum.

Í þriðja lagi stendur yfir endurskoðun á fjarskiptaáætlun 2015–2016 og verður væntanlega flutt um það þingsályktunartillaga á Alþingi í febrúar eða mars á næsta ári. Það er algerlega ljóst að stórt samstillt átak þarf ef árangur á að nást á þessu sviði því að fyrir liggur að uppbygging fullkominna fjarskiptainnviða á borð við ljósleiðara og 4G kerfi er mjög kostnaðarsöm. Þess vegna leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að í málaflokkinn verði lagðar 300 millj. kr. til að hefjast handa við verk sem kannski var horfið frá vegna fjárskorts á fyrri árum. Með greinargerð sem fylgir þessu framlagi leggur meiri hluti fjárlaganefndar fyrst og fremst áherslu á að áfram verði unnið að skipulagningu, áætlunargerð og kortlagningu stjórnvalda við svokallaðan innviðagagnagrunn og í að verkefni fari 40 millj. kr. Í öðru lagi verði ljósleiðarastofnnetið eflt, þ.e. hringtengingar ljósleiðara og það verður sérstakt verkefni á næsta ári að styðja við hringtengiframkvæmdir. Í þriðja lagi verði stuðlað að því að ótengdir byggðakjarnar sem ekki njóta ljósleiðaratenginga í dag verði tengdir. Þar getum við nefnt þéttbýlisstað eins og Kópasker, Raufarhöfn, Rif og Drangsnes. Heildaráætlun um kostnað við hringtengingu ljósleiðara er um 390 millj. kr. og um 160 millj. kr. að ljósleiðaratengja þéttbýlisstaði. Þá er í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar horft til nýsamþykktrar ályktunar Alþingis um byggðamál að styðja við uppbyggingu aðgangsneta í veikum byggðum. Því er lagt til í greinargerð með því framlagi sem meiri hlutinn leggur til sem breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið að 60 millj. kr. verði notaðar til að stuðla að uppbyggingu aðgangsnets í Skaftárhreppi.

Í starfi alþjónustuhópsins sem við hv. þm. Páll Jóhann Pálsson stýrum er nú á lokametrunum mjög umfangsmikil greining á kostnaði við háhraðanetsuppbyggingu. Það er einmitt hluti af því verkfæri sem við þurfum á að halda til að við getum unnið markvisst að málum. Út úr þeim gagnagrunni ætti m.a. að vera hægt að sjá hvað kostar að tengja tiltekinn hrepp og byggja upp aðgangsnet sem síðan ætti að geta undirbyggt það hvernig hið opinbera leggur til fjármagn og kemur að uppbyggingu eða stuðningi við uppbyggingu í þeim efnum.

Ég vil líka tala um það, herra forseti, að nú sé tími nýrrar hugsunar í uppbyggingu fjarskiptainnviða. Ég á þar fyrst og fremst við það sem ég nefndi áðan að koma þyrfti því umhverfi á að við gætum sameinast um eitt grunnkerfi. Þetta er engin sérstök uppfinning mín og engin sérstaða Íslands því þegar við skoðum hvað er að gerast í fjarskiptamálum í nágrannalöndum okkar eru þau flest að fást við það sama og við. Það er komin ákveðin stöðnun í uppbyggingu á fjarskiptainnviðum og stjórnvöld verða með einhverjum hætti að stíga inn á það svið til að hraða uppbyggingu háhraðainternetstenginga. Þegar við lesum til dæmis á síðum internetsins um áætlun sem hefur verið byggð upp í Bretlandi þar sem segir að Bretland sé bæði of stórt land og allt of fámennt til að þar geti mörg fjarskiptafyrirtæki rekið grunnkerfi, getum við kannski litið okkur nær og velt vöngum yfir því hvernig þessu er fyrir komið hjá okkur. Það má segja líka að hér hafi fæðst ákveðinn vísir að sams konar fyrirkomulagi. Það er starfandi félag um hringtengingu ljósleiðara um Ísafjarðardjúp þar sem einmitt er verið að safna saman mörgum hagsmunaaðilum til að sameinast um eina framkvæmd þar til að ljúka því mikilvæga verki. Hver niðurstaðan verður úr því er kannski of snemmt að spá um.

Virðulegi forseti. Af þeim efnum sem sveitarfélög bera til fjárlaganefndar og leggja höfuðáherslu á vil ég nefna næst hjúkrunarheimili og rekstur þeirra. 22 sveitarfélög af 43 lýstu yfir sérstökum áhyggjum af stöðu hjúkrunar- og dvalarheimila. Í fjárlögum árið 2014 var verulega bætt við rýmum á höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar var settur í fjárlög ársins 2014 sjóður sem átti að nota til að fjölga hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni og var 240 millj. kr. varið í að nýta laus pláss á hjúkrunarheimilum sem sveitarfélögin áttu. Þær ráðstafanir hafa sannarlega bætt rekstur margra hjúkrunarheimila verulega. En rekstur hjúkrunarheimila er óskaplega þungur og heilbrigðisráðherra hefur á árinu unnið að úttekt á málaflokknum. Fyrir liggur ítarleg skýrsla Ríkisendurskoðunar sem ráðherra hefur óskað eftir að Ríkisendurskoðun rýni frekar og komi með tillögur til úrbóta, m.a. úrbóta á þeim reiknigrunni sem framlögum er skipt eftir á milli heimilanna. En þegar við í fjárlaganefnd rýnum erindi sveitarfélaganna til nefndarinnar og ræðum um hvað þau raunverulega fjalla má í raun segja að flokka megi erindin eftir stærð sveitarfélaganna. Lítil hjúkrunarheimili í sveitarfélögum sem þar af leiðandi eru kannski ekkert stór eða burðug geta reynst sveitarsjóðum sínum óskaplega þungur baggi. Það eru nokkur dæmi um það þar sem tiltölulega lítil heimili í sveitarfélagi soga til sín næstum þriðjung af öllu lausu framkvæmdafé sveitarfélags á hverjum stað sem verður þá að ráðstafa upp í hallarekstur. Það er samt alls ekki svo þegar maður les skýrslu Ríkisendurskoðunar að það sé algert samhengi á milli stærðar hjúkrunarheimila og þess hvort reksturinn sé góður eða tap á honum. Í huga okkar í fjárlaganefnd verður að rýna skýrslu Ríkisendurskoðunar vel um rekstur hjúkrunarheimila og það þarf líka að vinna miklu nákvæmari greiningu á rekstri heimilanna og bera saman kostnaðarmyndun í rekstri þeirra og gera samanburð á milli heimila. Það verður verkefni á nýju ári að vinna að því.

Þá var einnig í erindum sveitarfélaga til fjárlaganefndar talsvert fjallað um samninga sem gerðir hafa verið við ríkið um byggingu hjúkrunarheimila. Bolungarvíkurkaupstaður lagði fram greinargóða greiningu sem styður að mörgu leyti málflutning sveitarfélaga um að þar þurfi að endurskoða fyrirkomulag og reiknireglur. Það er einn af þeim þáttum sem við þurfum að setjast yfir. Til að vinna úr þessum óskum sveitarfélaga leggur meiri hluti fjárlaganefndar til breytingu á fjárlagafrumvarpinu þannig að 50 millj. kr. framlag komi til að styðja við rekstur minni heimila. Jafnframt segir meiri hluti fjárlaganefndar að það verði að vera sérstakt forgangsmál Sjúkratrygginga að horfa til minni hjúkrunarheimila og gera við þau samninga og reyna með þeim hætti að koma rekstrarumhverfi þeirra sem fyrst í viðunandi horf. Það eru síðan margir aðrir þættir sem ástæða er til að fjalla um í rekstri hjúkrunarheimila og voru bornir upp við fjárlaganefnd eins og t.d. framtíð eftirlaunaskuldbindinga. Hvatningarorð okkar til ríkisins og þeirra sem um það semja eru þau að ljúka hið fyrsta frágangi á fyrirkomulagi á eftirlaunaskuldbindingum hjúkrunarheimila.

Virðulegi forseti. Í þriðja lagi af þeim erindum sem til fjárlaganefndar koma hafa mjög mörg sveitarfélög rætt um rafmagnsmál og um húshitunarkostnað. Rafmagnsmál geta verið víður málaflokkur í þeirri umræðu. Þar er fjallað um allt frá línulögnum yfir í þrífösunarrafmagn. Við landsbyggðarfólk þekkjum mörg í þessari umræðu þar sem mjög hægt gengur að endurnýja loftlínur Rafmagnsveitna ríkisins og plægja þær í jörð og um leið sem þær verða að þriggja fasa rafmagnstengingum. Það hefði kannski mátt bæta því við í umfjöllun um fjarskiptamál að það eru gríðarleg samlegðaráhrif með þrífösun rafmagns eða jarðstrengjavæðingunni og ljósleiðaravæðingu og ég held að stjórnvöld ættu ekki að láta það tækifæri fara fram hjá sér og reyna að nota ferðina þegar loftlínur rafmagns verða endurnýjaðar. Í mörgum erindum sveitarfélaga er líka fjallað um rafmagnsmál og afhendingaröryggi á raforku. Í sjálfu sér er það ekki á verksviði fjárlaganefndar að gera tillögur til úrbóta í þeim efnum en þar strandar á nokkrum stöðum þar sem þyrfti að efla flutningskerfi raflína. Það eru til kaupendur að rafmagni eins og fiskimjölsverksmiðjur á Norðausturlandi o.s.frv. sem mögulega gætu notað meira rafmagn ef hægt væri að flytja það til þeirra.

Það sem flest sveitarfélög nefna í rafmagnsmálum er húshitunarkostnaður. Það kemur okkur landsbyggðarfólki ekki verulega á óvart og hefur verið mál til umræðu hér í langan tíma. Ég leyfi mér að vitna í vef atvinnuvegaráðuneytisins þar sem segir núna í nýbirtri frétt, með leyfi forseta:

„Tæplega 10% landsmanna hafa ekki möguleika á notkun jarðvarma til húshitunar og búa því við niðurgreidda rafhitun og að óbreyttu munu framangreindar breytingar á virðisaukaskatti og upptaka jöfnunargjalds raforku koma óhagstæðast út fyrir þann hlut þessara íbúa sem búa í þéttbýli. Í dreifbýli vega hins vegar auknar niðurgreiðslur í formi jöfnunargjalds mun þyngra en hækkun vegna breytinga á virðisaukaskatti.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta, að stefna ráðherra sé að leggja fram tillögu til þingsályktunar „til að fá fram afstöðu þingsins til lengri tíma stefnumörkunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu á raforku til húshitunar frá og með árinu 2016. Til að ná því markmiði er áætlað að auka þurfi niðurgreiðslur vegna húshitunar um 240 millj. kr. til viðbótar.“

Í þeim breytingartillögum sem við ræðum í dag er lögð til hækkun á niðurgreiðslum til húshitunar um 70 millj. kr. sem á þá eingöngu koma til móts við hækkun á virðisaukaskatti.

Jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar er eitt af þeim atriðum byggðamála sem fjallað er um sérstaklega í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég segi að endingu um þetta mál sérstaklega að ég vonast til að sú tillaga til þingsályktunar sem ráðherra gefur yfirlýsingu um á heimasíðu ráðuneytisins, tillögu sem kalli fram stefnumörkun þingsins um að ljúka að fullu stefnumótun um niðurgreiðslu á flutningi og dreifingu raforku til húshitunar, nái fram að ganga. Ég vona að um það mál geti myndast góð samstaða á þinginu þannig að við getum lokið því með sóma.

Herra forseti. Í fjórða lagi er í erindum sveitarfélaga og landshlutasamtaka fjallað mikið um vegagerð. Þar eru mörg svið undir; auknir fjármunir til lagningar tengivega, ósk um fjármuni til þjónustu og aukaþjónustu og viðhald vega og um forgangsröðun framkvæmda. Í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar eru lagðar til nokkrar breytingar á fjármögnun til Vegagerðarinnar. Lögð er til hækkun á framlagi til Vegagerðarinnar bæði í tillögum ríkisstjórnar og fjárlaganefndar. Um 570 millj. kr. hækkun verður á framlagi til framkvæmda, en eins og segir í greinargerðinni verður lögð áhersla á að horft verði til framkvæmda við safn- og tengivegi auk nýframkvæmda á dreifbýlum svæðum. Þá eru 250 millj. kr. lagðar til vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Að ósk og tillögu innanríkisráðuneytisins og Vegagerðarinnar hefur verið ákveðið að færa 850 millj. kr. hækkun framlags til framkvæmda sem birt var í fjárlagafrumvarpi til viðhalds á vegakerfinu. Það er einfaldlega þannig komið fyrir vegakerfinu að ef ekki verður forgangsraðað fyrir viðhaldi á því getur það valdið verulegum skaða.

Í áherslum sveitarfélaga er líka fjallað um flugvelli og viðhald þeirra. Það eru kannski með einhverjum hætti tíðindi í breytingartillögum meiri hlutans að ráðist er í það að brjótast út úr þeirri stöðu, svo við tölum bara af hreinskilni um það mál. Við erum búnir að velkjast með það í talsverðan tíma hvort nota megi fjármuni úr millilandaflugi til að byggja undir innanlandsflug. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir að tillögu sinni að taka arð út úr Isavia og ráðstafa honum til uppbyggingar flugvalla. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir sér fullkomlega grein fyrir því að það er ekki hans að mæta á aðalfund og segja að þetta skuli taka. En þetta er stefnumörkun sem lögð er fram í fjárlagafrumvarpinu og er þar af leiðandi gagn fyrir þann sem heldur á hlutabréfi ríkisins í Isavia til að fara eftir. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir að sama skapi tillögu um ráðstöfun á þeim fjármunum til viðhaldsframkvæmda á allmörgum flugvöllum sem lengi hafa beðið.

Virðulegi forseti. Mig langar til að fjalla aðeins um hvað þetta raunverulega snýst. Þetta snýst t.d. um það að við höfum flugvöll á Gjögri sem þjónar Árneshreppi á Ströndum. Þar er búnaður orðinn gamall og slitinn og það er farið að tala um lokun á þeim flugvelli. Það hefur í langan tíma staðið til að malbika flugvöllinn. Fyrir allnokkru síðan var malað efni í þá malbikunarframkvæmd en ekki hafa verið til fjármunir til að leggja klæðninguna á völlinn. Það þýðir að við erum ekki að nota besta flugvélakostinn til að þjónusta þann flugvöll. Það þýðir líka að ef ekki verður brugðist við, ef ekki verður farið út í viðhaldsframkvæmdir, verður flugvellinum lokað. Þá er það einfaldlega þannig, herra forseti, að þessi byggð hefur ekki neina opna samgönguæð og þangað geta ekki borist vistir eða nauðsynjavörur. Um þetta snúast þessi mál. Síðan getum við nefnt fjölmarga aðra flugvelli sem vantar viðhald og sem er ákaflega mikilvægt fyrir viðkomandi byggðir að verði áfram opnir og þjónustaðir.

Þá hef ég í aðalatriðum lokið við að fara yfir það sem stendur upp úr úr heimsóknum og innsendum erindum til fjárlaganefndar. Erindin voru mikil að vöxtum en þetta eru kannski þeir málaflokkar sem standa hæst þegar maður telur saman efnisatriði innsendra erinda. Þótt það sé kannski ekki góður mælikvarði er það samt ákveðinn mælikvarði á það hvað fólkið sjálft vill leggja áherslu á og sem við eigum að sönnu að bregðast við og vinna með.

Aðeins meira um nokkur önnur atriði í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Í fjárlagafrumvarpinu eru lagðir fram verulegir fjármunir til að efla vísinda- og tækniþróun. Það er gleðiefni, ég ætla að taka það fram, en við megum aldrei gleyma því að hér eru líka vísindamenn og rannsóknir sem við þurfum að stunda sem passa ekki endilega inn í samkeppnissjóði. Ég á þar við ákveðnar grunnrannsóknir eins og t.d. rannsóknir sem unnar eru hjá Hafrannsóknastofnun. Þess vegna er m.a. verið að leggja aukna fjármuni til Hafrannsóknastofnunar. Það er líka þess vegna sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um að aukið verði um 55 millj. kr. í rannsóknir í þágu landbúnaðarins. Tilurð þess fyrirkomulags að það er sérstakur fjárlagaliður um rannsóknir í þágu landbúnaðarins má rekja allt til ársins 2005 þegar Landbúnaðarháskólinn var sameinaður úr þremur stofnunum. Þá var rannsóknarfé gömlu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sett í þann sjóð og hann vistaður í fagráðuneyti landbúnaðar. Það er síðan ráðherra landbúnaðarmála á hverjum tíma að gera samning við Landbúnaðarháskóla Íslands um áherslur í rannsóknum. Um langan tíma hefur þessi samningur ekki hækkað í takt við verðlag og þar af leiðandi hefur gildi Landbúnaðarháskólans rýrnað býsna hratt á undanförnum árum. Ég get algerlega vottað að það er orðið vandamál í íslenskum landbúnaði að ekki hefur tekist að sinna rannsóknum á ákveðnum grunnþáttum nægilega vel á undanförnum árum. Ég ætla kannski ekki að fara út í það í efnisatriðum hér (Gripið fram í: Jú.) — en ég skal þá gera það ef kallað er eftir því. Það vantar til dæmis að gerðar séu einfaldar fóðurtilraunir um notkun á selen, hvort selen í fóðri getur skilað sér í bættri heilsu búfjár. Okkar vantar að sama skapi einfaldar áburðartilraunir, hvort selen í áburði skili sér aftur upp í fóðrið o.s.frv. Við getum talið upp fjölmörg atriði sem eru í raun og veru klassískar grunnrannsóknir í landbúnaði sem við þurfum sannarlega að komast í að sinna. Ég fer ekki lengra út í það hér. Auðvitað tengist þetta umræðunni um framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands og þann styr sem hefur staðið um þá stofnun. Á öðrum stað í breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið er sagt frá 17,9 millj. kr. tillögu um viðbætur í rekstur landbúnaðarháskólans. Landbúnaðarháskóli Íslands fær því í frumvarpinu verulegar úrbætur sem verða vonandi til þess að hann geti aftur sótt fram, hann geti aftur hafið sig upp í það að sinna grunnrannsóknum í klassískum hefðbundnum landbúnaði jafn vel og hann hefur getað á undanförnum árum, hvort sem við erum að tala um nautgriparækt, garðyrkju eða hvaða búgrein sem það er.

Herra forseti. Það var athyglisverð mynd í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi þar sem fjallað var um svínaflutninga í Evrópu. Mig langar að verja aðeins tíma mínum að ræða um það. (ÖS: Hættum að borða svín eftir þann þátt.) Þar kom fram það sem við þorum aldrei að ræða og ég ætla að vera algerlega ærlegur í því að það er ljóður á ráði okkar margra að tala ekki um það sem raunverulega er að. Burt séð frá því hvað sem okkur finnst um dýravelferðarþáttinn þá fannst mér skína svo vel út úr þessum þætti hvernig afkoma bænda er. Það er í raun og veru nákvæmlega það sama sem við upplifum í flestum íslenskum búgreinum líka. Hvort sem við trúum á verslunarkerfi tolllausra viðskipta eða annað þá er það einfaldlega alltaf valdastaðan í enda dags sem skiptir máli, þ.e. valdastaða verslunarinnar og hvaða tak hún hefur á frumframleiðendum. Þetta er orðið í heimi bænda hvar sem er í heiminum eitt og sama vandamálið. Ég veit í sjálfu sér ekki hvaða tækjum við getum beitt til að taka á því og hvernig við eigum að taka á því. Það er kannski hluti vandans, við vitum það ekki. Bændur stækka bú sín ár frá ári, þau eru stærri og stærri, það virðist alltaf vera eina ráðið að stækka búið. Þeir vinna meira en bera minna úr býtum. Síðan koma allar neikvæðu afleiðingarnar í ljós sem varða dýravelferðarmál, slæm meðferð dýra og slæmur aðbúnaður sem er okkur engum til sóma. En við ræðum það kannski ekki nánar í tengslum við fjárlagavinnuna fyrir árið 2015.

Af öðrum úrræðum til að bregðast við vanda Landbúnaðarháskóla Íslands má nefna að sett er inn í 6. greinar heimildir tillaga um að heimilt verði að selja hlut af eignum skólans og ráðstafa þeim að hluta til að greiða upp í halla skólans, því hann hefur verið gerður að umtalsefni og hefur safnast upp. Það er mikilvægt að við höfum í huga varðandi þennan tiltekna skóla að hann er gríðarlega sterkur að eignum. Það er mjög varlega áætlað að eignir stofnunarinnar séu 2,5–3 milljarðar kr. og það er engin ástæða að hún sitji uppi með eignir sem hún þarf ekki að nota og hefur mögulega íþyngjandi kvaðir af að halda á, að hún sé ekki losuð við þær og salan notuð til að efla starfsemina.

Einn þáttur enn sem ég vil fjalla um varðandi rannsóknir er sjóður um aukið virði sjávarfangs, AVS-sjóðurinn sem nú fær um 43 millj. kr. í fjárveitingu. Hann er á sama hátt og rannsóknasjóður í þágu landbúnaðar gríðarlega mikilvægur til að sinna mörgum litlum rannsóknarverkefnum sem m.a. eru unnin úti á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Þau atriði sem ég hef rakið í þessari ræðu snúa mörg hver mjög að landsbyggðinni og skipta hana miklu máli og það er kannski ekki síst vegna þess að það eru fyrst og fremst landsbyggðarsveitarfélögin sem bera fram þessi erindi, en þau eru mikilvæg fyrir alla landsmenn því góður vöxtur og viðgangur landsbyggðarinnar skiptir alla máli.

Mig langar aðeins að fjalla um hlutverk fjárlaganefndar að því leyti að fást við fjárhag sameinaðra stórra eftirlitsstofnana. Það er umhugsunarefni hver á að stýra eftirlitsstofnunum. Nú er ég ekki að tala um að veikja eftirlitsstofnanir heldur að við sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar veitum það aðhald að þær sinni því lögboðna hlutverki sem þær eru stofnaðar til að sinna. Ég hef sérstaklega eitt mál í huga. Við sameinuðum margir og miklar stofnanir í eina landbúnaðarstofnun sem núna heitir Matvælastofnun. Eitt af þeim embættum og verkefnum sem fylgdu við sameiningu þeirrar stofnunar var sauðfjárveikivarnir og sauðfjárveikivarnalínur sem eru viðhald á girðingarhólfum til að verjast búfjársjúkdómum. Síðan gerist það í áranna rás að fjárlagaliður sem áður var í fjárlögum hvers árs er lagður niður og stofnunin og stjórnendur stofnunarinnar segja: Þetta er allt í lagi, þetta má fara út því við munum forgangsraða fjármunum til að sinna þessu verkefni. Svo gerist það bara að stofnunin hættir að sinna verkefninu. Við höfum áður talað um skyldur stofnana og í þessu tilfelli er ekki verið að sinna þeim skyldum. Þó þetta sé kannski ekki stórir fjármunir fyrir efnahag þjóðarinnar er gríðarlega mikilvægt að sinna viðhaldi á girðingum og bera virðingu fyrir því merkilega starfi að vinna að því að halda niðri búfjársjúkdómum á Íslandi. Það er líka efnahagslegt mál fyrir sumar sveitir landsins. Í ákveðnum sveitum er stór hluti af innkomu bænda einfaldlega sala á líflömbum eða gripum til kynbóta og til áframræktunar og með því að trassa þann málaflokk sérstaklega ógnum við stöðu þeirra sveita. Þess vegna var það talsverður hausverkur fyrir okkur í fjárlaganefnd núna þegar við veltum fyrir okkur hvaða tæki og tól við hefðum til að segja t.d. Matvælastofnun að sinna þessu hlutverki. Við gerum ekki tillögu um það beint í breytingartillögum okkar núna en það má vel vera að við þurfum að gera það á næstu árum því í raun og veru getum við ekki hunsað þetta; að spyrja ekki og stuðla ekki að því að stofnanir geti sinnt lögboðnum skyldum sínum.

Tekist er á um marga hluti við gerð fjárlaga hverju sinni og ég gæti nefnt fjölmörg önnur atriði. Við erum örugglega öll missátt, hvort sem við erum í meiri hluta fjárlaganefndar eða meiri hlutanum í þinginu eða minni hlutanum um áherslurnar sem birtast. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé fullkomlega sáttur við allt í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er málamiðlun á milli sjónarmiða og hagsmuna. Það sem ég vil að endingu segja er að þegar við erum búin að loka þessu verki og leggja frá okkur tillögurnar þá veltir maður fyrir sér: Hvað gat maður gert betur? Hvað var það sem maður átti að slást meira fyrir? Þá vil ég segja, vegna umræðu sem hefur farið fram hér í dag sem er mjög innihaldsrík og góð, t.d. um áherslur í heilbrigðismálum, að ég tel að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni séu kannski veikasti hlekkurinn í velferðarkerfi okkar í dag. Fjárhagur þeirra er einfaldlega á svo þunnum ís að ekki þarf nema veikindi lykilstarfsmanna til að ógna verulega rekstrarstöðu þeirra. Þetta er hlutur sem við þurfum að vinna með á næstunni. Hvort við bregðumst við því í þessum fjárlögum ætla ég ekkert að boða, en ég er verulega hugsi yfir því hvernig við göngum frá málum að þessu sinni og þá sérstaklega heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það tel ég að sé einn af þeim þáttum sem við megum taka með okkur í þessa umræðu og íhuga fyrir næstu umræðu eða næstu fjárlagagerð hvernig við bregðumst við til að forða þar alvarlegum áföllum.