144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þótt freistingagjarn sé ætla ég ekki að falla í þá freistni að rökræða hér finnskan landbúnað og ESB við hv. þingmann. Til þess þarf meiri tíma. Ég þakka honum fyrir svörin gagnvart Landbúnaðarháskólanum. Ég ætla heldur ekki að abbast upp á hv. þingmann og segja að staða þess skóla sé tómt klúður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki honum að kenna. Mér finnst málið vera klúður, mér finnst fjarri því að búið sé að kippa því í liðinn. Við vitum vel að skortur á stefnufestu til að koma málum skólans í horf er honum meira en fjötur um fót.

Varðandi rannsóknirnar segi ég það að rannsóknir þessa skóla eru örlítið gullegg sem hvorki stjórnvöld né bændur eru búnir að gera sér grein fyrir. Það mun koma að því. Ég held því fram að ef það á að selja eigurnar eigi þær að renna allar til skólans. Mig langar að spyrja hv. þingmann af ókunnugleika mínum gagnvart öðru máli, sauðfjárveikivörnunum, mjög einfaldrar spurningar: Telur hv. þingmaður að sú skipulagsbreyting sem gerð var og sá háttur sem er hafður núna á þeim hafi birst í því að veikari varnir hafi beinlínis leitt (Forseti hringir.) til beinna vandræða fyrir landbúnað í landinu eða sé á barmi þess að gera það?