144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir. Ég ætla ekki að lengja þennan þingfund en hann talaði fyrir breytingartillögu sem hann lagði fram í dag um stöðu námsráðgjafa við Litla-Hraun. Ég veit að honum er mjög umhugað um velferð fanga, eins og mér, því að ég held að við lítum bæði svo á að innan þessara stofnana eigi að eiga sér stað betrun. Það er afar mikilvægt að þessi staða leggist ekki af og því hefur þingmaðurinn lagt fram þá tillögu að það verði hreinlega teknar nýjar 8 milljónir og færðar beint á Fangelsismálastofnun ríkisins en ekki leitað að þessum 8 milljónum sem við höfum upplýsingar um að eigi að fylgja fjárveitingu til fjölbrautaskólans á Selfossi.

Vegna þess að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson situr í allsherjar- og menntamálanefnd og að allsherjar- og menntamálanefnd hefur nú þegar lagt fram breytingartillögu við fjárlög fyrir árið 2015 um heiðurslaun listamanna langar mig til að spyrja þingmanninn: Getur verið að breytingartillagan sem hann talaði fyrir áðan varðandi námsráðgjafa til Fangelsismálastofnunar ríkisins með aðsetur fyrir austan fjall eigi að fara til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd vegna eðlis tillögunnar? Það er verið að taka ákvörðun um hvort það eigi að fara að veita fé sem er eyrnamerkt námi inn í innanríkisráðuneytið eða hvort þessi skóla- og menntamál eigi sér frekar stað í menntamálaráðuneytinu og ætti þá betur heima í allsherjar- og menntamálanefnd.