144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir góðan punkt. Það er eitt augljóst í þessu máli, það varðar í raun tvo málaflokka, annars vegar betrunarmál, fangelsismál, og hins vegar menntamál og tilheyrir eins og er þeim hluta sem heyrir undir menntun, enda hefur fjármagnið farið til Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Ég tek vel í það að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjalli um málið og jafnvel leggi þetta fram ef það er mögulegt. Ég þyrfti kannski að kynna mér aðeins betur þingskapaferlið í kringum það allt saman til að geta fullyrt nákvæmlega hvernig ætti að haga því. Þó tel ég að hv. allsherjar- og menntamálanefnd mundi alltaf vilja auka fjármögnun beggja málaflokka yfir höfuð þannig að kannski á þetta heima frekar í hv. fjárlaganefnd sem er þá betur í stakk búin til að skoða hvernig farið hefur verið með fjármagnið og hvernig best sé að búa um þetta á forsendum fjárlagafrumvarpsins.

Að því sögðu sé ég ekkert því til fyrirstöðu að báðar nefndir fjalli um málið ef svo ber undir. Hvað sem því líður er vissulega ekki ásetningur minn að draga úr fjármögnun til Fjölbrautaskóla Suðurlands. Almennt er ég óttalegur menntakommi ef ég á að segja alveg eins og er og vil helst auka fjármagn bæði til Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fangelsismálastofnunar, reyndar verulega. Það er nokkuð sem ég mundi reyndar gera sem nefndarmaður í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Málið liti óhjákvæmilega öðruvísi út ef fókusinn væri annar, nefnilega á fjárlögin og hvernig á að láta þetta allt saman ganga. Þess vegna finnst mér eðlilegt að hv. fjárlaganefnd fjalli nánar um það.