144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá sjónarmið framsögumanns tillögunnar vel fram. Hann álítur að fjárlaganefnd eigi að taka þessa tillögu til sín og fjalla um hana. Við því verðum við að sjálfsögðu. Ég tel þó rétt vegna eðlis málsins að fjárlaganefnd mundi fara fram á það við nefndina að gefa okkur umsögn um tillöguna. Báðir málaflokkar eru í allsherjar- og menntamálanefnd, fangelsismálin og menntamálin, þannig að þá er hún búin að vega og meta hvorum megin þetta liggur. Fjárlaganefnd kíkir kannski á málin út frá því hvernig peningunum er varið núna og lítur yfir þau mál en við fáum þá frekar ráðgefandi álit á hvort við eigum að leggja til, ef þessi breytingartillaga fær hér hljómgrunn, að peningarnir fari inn í innanríkisráðuneytið og þaðan til Fangelsismálastofnunar eða í menntamálaráðuneytið og þaðan í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Við bara skoðum málið. Ég held að ég geti þá sagt við hv. framsögumann tillögunnar að ég gæti trúað því fyrir hönd nefndarinnar að fjárlaganefnd fengi ráðgefandi álit frá allsherjar- og menntamálanefnd eins og svo algengt er þegar það er svona óljóst um frumvörp eða þingsályktunartillögur hvar málin eiga að liggja samkvæmt þingsköpum.