144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka aðeins til umræðu stöðu litlu framhaldsskólanna vítt og breitt um landið. Nú er verið að leggja lokahönd á fjárlagafrumvarpið og staða litlu skólanna eins og t.d. framhaldsdeildarinnar á Patreksfirði er í miklu uppnámi. Heimamenn hafa eðlilega miklar áhyggjur af framtíð deildarinnar. Þar þarf viðbótarfjármagn til að hægt sé að halda áfram því námi sem þar hefur verið boðið upp á og hefur verið að vaxa og dafna undanfarin ár. Framhaldsdeildin á Patreksfirði er elsta dreifnámsdeildin í landinu og er útibú frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Þar er mikill metnaður. Heimamenn hafa miklar áhyggjur af því að fjárveitingavaldið ætli ekki að standa við bakið á deildinni og sjá til þess að hægt sé að taka á móti þeim nemendum sem hafa áhuga á að stunda þar nám. Ég ætti ekki að þurfa að gera þingheimi grein fyrir því hve mikil þörf er á því að nemendur geti stundað nám í heimabyggð.

Þetta sveitarfélag hefur lengi átt undir högg að sækja en nú er sem betur fer uppgangur þar í atvinnumálum, bæði í laxeldi, ferðaþjónustu og ýmsu öðru sem þar hefur komið til. Það er þess vegna mjög sárt að horfa til þess að stjórnvöld ætli ekki að standa við bakið á þeim grunnstoðum sem nám í heimabyggð á framhaldsskólastigi er og hefur gengið mjög vel. Ég hvet hv. þingheim (Forseti hringir.) til þess að leiðrétta þetta og að skólinn og sambærilegir skólar úti um land fái þann stuðning sem til þarf svo þeir geti haldið áfram rekstri.