144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil vekja athygli á viðtali sem var á þættinum Morgunútgáfunni á Rás 1 í morgun við rektor Menntaskólans í Reykjavík, Yngva Pétursson. Þar kom fram að menntamálaráðuneytið hefur hafnað beiðni skólans um að ráðast í þróunarverkefni um að nemendur úr 9. bekk geti tekið inntökupróf í skólann þannig að þeir geti útskrifast sem stúdentar ári fyrr en nú gerist.

Árið 2007–2008 var unnið þróunarverkefni við skólann sem gerði nemendum úr 9. bekk kleift að taka námsefni 10. bekkjar og fyrsta ár í framhaldsskóla á einu ári. Það þróunarverkefni tókst vel. En nú er sem sagt ekki fallist á að halda því verkefni áfram með nokkuð nýju sniði.

Í júní síðastliðnum gaf hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra út hvítbók þar sem boðað var að stytta skyldi nám til stúdentsprófs um eitt ár. Engar vangaveltur voru um hvernig það skyldi gert. Í dag er nám til stúdentsprófs 14 ár, þar af tíu í grunnskóla og fjögur í framhaldsskóla. Ekkert er rætt um hvernig haga eigi styttingunni heldur er gefin út dagskipun. Kannski hentar sumum frekar að stytta grunnskólann og öðrum að stytta framhaldsskólann. Því spyr ég: Er ekki hægt að hafa einhverja fjölbreytni í því?

Reyndar undrast ég, virðulegi forseti, þá forsjárhyggju sem endurspeglast í vinnubrögðum hæstv. ráðherrans, ekki bara í þessu máli sérstaklega heldur einnig t.d. í ákvörðun hans um að fólk sem orðið er 25 ára hafi ekkert í bóknám að gera nema það borgi fyrir það há skólagjöld. Síðan má nefna afstöðu hans til Ríkisútvarpsins og reyndar flestra mála sem ráðherrann tekur fyrir. Þar gildir forsjárhyggja númer eitt, tvö og þrjú.