144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:16]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ríflega 40% af öllum útgjöldum ríkissjóðs fara til velferðar- og heilbrigðismála. Þjóðin er að eldast og ljóst er að við þurfum að vera með gott plan ef við ætlum að halda áfram að veita öllum góða heilbrigðisþjónustu. Við erum fámenn þjóð og aðeins hluti þjóðarinnar stendur undir allri velferðinni með því að borga skatta og skyldur. Hvað ætlum við að gera? Við þurfum að auka verðmætasköpun í landinu og jafnframt að tryggja að hin aukna verðmætasköpun skili sér í ríkiskassann í formi skatta. Það gerum við með einfaldara og gagnsærra skattkerfi og auknu skatteftirliti. Ég fagna því mjög að nú skuli meiri hluti fjárlaganefndar leggja til að 26 milljónir verði lagðar til skatteftirlits til viðbótar við það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

En við verðum líka að sinna hinni hliðinni, þ.e. öflugri heilsugæslu og hafa góða lýðheilsustefnu. Kerfið okkar eins og það er í dag einkennist of mikið af viðgerðum. Við getum sparað mikla fjármuni í heilbrigðiskerfinu með því að hafa lýðheilsustefnu að leiðarljósi í allri stefnumörkun, bæði ríkisins og sveitarfélaga.

Forsætisráðherra hefur sett á fót lýðheilsunefnd og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 30 milljónir verði veittar til lýðheilsuverkefna, sem er vel. Við búum svo vel að geta leitað í reynslu nágrannalanda okkar sem hafa mörg hver þegar markað sér skýra stefnu í þessum málum. Við eigum fjöldann allan af færum sérfræðingum á þessu sviði og almennur áhugi fólks fer vaxandi. Bætt lýðheilsa er sameiginlegt verkefni almennings, sérfræðinga og okkar stjórnmálamannanna.