144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á þskj. 576 þar sem er að finna svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins við spurningum undirritaðs um sparnað af sameiningu ráðuneyta sem var farið í á síðasta kjörtímabili. Lagðar voru fyrir ráðuneytið fjórar spurningar. Þar kemur fram meðal annars að kostnaðurinn við að sameina ráðuneytin nam tæpum 437 milljónum og í þeim tölum er ekki tekið tillit til biðlauna. Það kemur líka fram að mjög erfitt sé að áætla sparnaðinn sem varð af þessari framkvæmd og skilja hann frá almennum aðhaldsaðgerðum sem var beitt frá árinu 2009 fram á þennan dag. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ekki er hægt að greina á milli árangurs af sameiningu ráðuneyta og almennrar hagræðingar sem átti sér stað á tímabilinu.“

Það kemur fram að útgjöld eru um 16% lægri núna árið 2014 en þau voru á árinu 2008. Það er líka afskaplega athyglisvert að fram kemur þó nokkur sparnaður milli áranna 2013 og 2014 þegar ný ríkisstjórn tók við. Munar um 140 milljónum í Stjórnarráðinu milli áranna 2013 og 2014.

Spurt var einnig um þróun fjölda stöðugilda. Þróunin frá maí 2009 til maí 2013 var sú að störf jukust sífellt í Stjórnarráðinu en fækkaði dramatískt milli 2013 og 2014. Ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess að það virðist vera svo, samkvæmt þessu svari fjármálaráðuneytisins, að ekki skipti öllu máli hvort t.d. fjöldi ráðherra sé átta, tíu eða ellefu fyrir heildarkostnað við Stjórnarráðið, en það skiptir kannski (Forseti hringir.) meira máli hvernig verkefnum er raðað.