144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með að hæstv. forseti sé enn þá forseti, ég hef mært forseta þingsins fyrir að halda vel á málum hér þegar við erum að glíma við flóknar aðstæður. Ég vil taka undir orð hv. þingmanna Helga Hrafns Gunnarssonar og Brynhildar Pétursdóttur um að furðulegt verklag, hefðahelgað verklag sé á þessum vinnustað. Ég hef rætt um það alveg síðan ég byrjaði að vinna hér, þannig að ég er búin að vera að nöldra yfir þessu í fimm og hálft ár og hefur lítið breyst.

Það var sett á fót þingskapanefnd sem átti að sjá til þess að laga þingsköpin. Hún var sett á fót á síðasta kjörtímabili og skipað var í nýja nefnd á þessu þingi en sú hv. nefnd hefur ekki hist oft. Ég vil skora á forseta og þá þingmenn sem eiga sæti í nefndinni að tryggja að hún hittist svo hægt sé að verða við þeim fjöldamörgu ábendingum sem þingmenn hafa komið með á málefnalegan hátt í þessum stól. Það er bagalegt að ekki sé hlustað á ábendingar þeirra sem þurfa að vinna eftir verklagi sem er alveg ljóst að virkar ekki, ekki fyrir neinn.

Síðan vil ég taka undir þær áhyggjur sem komu fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég hef miklar áhyggjur af þessum náttúrupassamálum og því að ég geti ekki farið á Þingvelli án þess að það sé skráð. Ég heiti bogaralegri óhlýðni gagnvart þessum náttúrupassa.