144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann, lesa fyrir hana upp úr kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar þar sem segir: „Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins.“

Þessi lína er tekin upp úr ályktun landsfundarins fyrir kosningarnar þar sem sjálfstæðismenn vildu þessa setningu inn. Hún rataði inn í stefnuskrána, rataði inn sem kosningaloforð.

Það kemur líka fram í velferðarráði, eða velferðarnefnd held ég að það heiti, innan Sjálfstæðisflokksins, alla vega ályktuðu þeir í svoleiðis batteríi inni í Sjálfstæðisflokknum, sem ályktaði um velferðarmál fyrir landsfundinn þar sem er sagt: „Þar skal haft að leiðarljósi að heilbrigðisstarfsfólk okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins. Leggja verður ríka áherslu á breytta forgangsröðun varðandi fjárveitingar til endurskipulagningar og uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu í þágu sjúklinga og með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta.“

Svo í stjórnarsáttmálanum kemur fram að íslenskt heilbrigðiskerfi verði að vera samkeppnisfært við nágrannalöndin. Það er annað mikilvægt atriði sem var líka talað um sem er brýn forgangsröðun, það eigi að forgangsraða fjármagni skattgreiðenda í brýn málefni. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún sé sammála því varðandi stöðu læknamannauðsins okkar að brýnt sé að tryggja það, jafnvel með því að veita læknastéttinni og heilbrigðisstéttinni (Forseti hringir.) ákveðna sérmeðferð, þau geti fengið meiri launahækkanir en á almennum vinnumarkaði, að brýnt sé að gera það sem við þurfum að gera til að við missum ekki lækna úr landi og förum mögulega í neikvæðan spíral þar sem við missum lækna, álagið þeirra fer á aðra. Þetta segir landlæknir (Forseti hringir.) að gæti gerst miðað við núverandi ástand.