144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að hv. þingmaðurinn kemur inn á þetta. Tíföld launahækkun er ekki endilega það sem er nauðsynlegt til þess að tryggja að við lendum ekki í neikvæðum spíral þar sem við missum fólk út og vinnuálagið lendir á þeim sem eftir eru sem eru þá líklegri til að fara.

Það þarf ekki endilega 30% en það þarf klárlega meira en 3% ef við ætlum ekki að lenda í þessu. Varðandi aðra lækna sem koma til landsins og þurfa að fá læknisleyfi frá landlækni þá er námið metið inni í læknadeild Háskóla Íslands, ég er byrjaður að kynna mér þetta. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég fór og talaði við landlækni í gær. Staðan er þannig að ástæðan fyrir fjöldatakmörkuninni er að það er takmarkað af heilbrigðisstarfsmönnum fyrir og rými til þess að taka við öllu þessum nýju starfsmönnum eða nýju nemum og starfsfólki sem þarf að fara í einhverja endurmenntun til þess að fá læknisleyfi.

Ef við förum að missa læknana þá minnkar þessi geta líka, við megum ekki horfa fram hjá því. Nú ætla ég ekki að verja klásusinn, hvernig hann er settur upp, við verðum að hætta að meta út frá einhvers konar bókmenntafræðilegu bulli þegar kemur að læknisfræði og meta (Forseti hringir.) hæfi þeirra lækna sem koma, það verður að nálgast (Forseti hringir.) málið öðruvísi, klárlega. En við stöndum frammi fyrir því að við þurfum að fara í meira en 3% launahækkanir. Finnst þingmönnum ekki réttlætanlegt (Forseti hringir.) að læknar geti fengið það, rétt eins og yfirstjórnendur í viðskiptalífinu geta (Forseti hringir.) fengið tugprósenta hækkanir?

(Forseti (KLM): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk. Þegar andsvar er aðeins ein mínúta þá er mikið þegar menn fara 20–30 sekúndum fram yfir.)