144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðu hans. Nokkuð mikið af henni hef ég nú heyrt áður frá þingmanninum, en það er ágætt að rifja upp fortíðina. Fór hann yfir nýlegt svar sem barst þinginu um hvað endurreisn bankanna hefði kostað ríkið mikið og fór orðum um það. Í þeirri upptalningu þingmannsins gleymdi hann að tala um hvað ríkið lagði Íbúðalánasjóði mikið fjármagn til á síðasta kjörtímabili, það losar líklega bráðum tæpa 50 milljarða. Þingmaðurinn fór vel yfir það að hann væri stoltur af því að íslenska ríkið ætti Landsbankann, en það var aldeilis ekki ókeypis, virðulegi forseti. Þegar ríkið tók Landsbankann yfir og nýja bankann var skrifað undir umdeilt skuldabréf, svo ekki sé meira sagt. Það voru reyndar tvö skuldabréf, annað var skilyrt og hitt var upp á tæpa 280 milljarða, þannig að samtals er upphæðin á þeim um 300 milljarðar að núvirði og það allt saman í erlendri mynt. Mér skilst að skuldabréfið hafi verið á þann hátt að ef bankastarfsmenn sem störfuðu í þessum banka gætu rukkað skuldug heimili og fyrirtæki upp í topp mundi gulrótin vera sú að gefa starfsmönnunum 2% í bankanum. Þetta er gjörningur sem við sitjum uppi með um langa framtíð. Þetta er alveg einsdæmi, virðulegi forseti, og gott að rifja það upp af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að fara aðeins yfir fortíðina.

Þá að spurningunni. Hann átelur skattstefnu núverandi ríkisstjórnar og telur að menn séu að afsala sér tekjum með því að lækka skatta. Ég spyr því þingmanninn: Hvernig stóð þá á því að þegar erfðafjárskattur var hækkaður úr 5 (Forseti hringir.) og upp í 10% á síðasta kjörtímabili dróst erfðafjárskattur sem skilaði sér til ríkisins saman um milljarð einungis á einu ári?