144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Þess ber að geta að Landsbankinn er nú það skuldsettur í erlendum gjaldmiðli að það háir ekki einungis bankanum heldur ríkissjóði sjálfum líka, þannig að þetta lítur ekki alveg eins vel út eins og þingmaðurinn vill meina. Eins og flestir vita náttúrlega er þarna mjög erfið staða. Þó að hægt hafi verið að greiða arð af hagnaði í fyrra og leggja það inn sem tekjur í ríkissjóð erum við ekkert komin yfir þann hjalla og alls ekki komin yfir þann hjalla sem varðar fjármál ríkisins, því eins og þingmaðurinn veit verður árið 2016 sem nálgast mjög hratt mjög erfitt rekstrarár í sögu ríkisins vegna himinhárra gjalddaga lána sem við þurfum að reiða af hendi.

Ég er ekki sammála þingmanninum um að fólk hafi hætt að deyja á síðasta kjörtímabili, því það er nú svo í aldurssamsetningu þjóða að fæðingar og dauðsföll eru í ákveðnum hlutföllum. Skýringin á þessu er sú að þegar skattur er orðinn of hár þá hættir hann að skila sér í ríkissjóð. Þegar skattur er orðinn jafn hár og var í tíð síðustu ríkisstjórnar skapast freistnivandi og sá freistnivandi leiðir til skattundanskota. Það kom beinlínis fram í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins á fundum á síðasta kjörtímabili þegar ég spurði út í þetta. Þegar erfðafjárskatturinn var hækkaður svona mikið var það einmitt þannig að fólk kom eigum sínum undan, kannski fólk komið á aldur og farið að gefa börnum sínum fyrir dauðsfall. Þetta er dæmi um að skattprósentan sé orðin allt of há. Til rökstuðnings má geta þess að eftir að ríkisstjórnin tók við og lækkaði skatta og álögur hafa tekjur streymt í ríkissjóð eins og kom fram á uppgjöri (Forseti hringir.) ársins. Tekjuafgangur er orðinn langt yfir 40 milljarða þegar gert (Forseti hringir.) var ráð fyrir í fjárlögum að hann ætti að vera einungis 900 milljónir. Það er vegna þess að skattarnir eru að skila sér betur.