144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók einmitt eftir þessu í morgun á fundi í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar kom þetta fram og þær afleiðingar sem það hefur. Þetta er þeim mun alvarlegra þar sem ég get ekki betur séð en að það sé aðeins meiri hluti fjárlaganefndar, stjórnarmeirihlutinn, sem ákveður að láta útvarpið fá einhvern pening, enda verði þeir að fá aðeins lengri tíma til að skera niður. Við erum að tala um 800–1.000 milljónir Þetta tengist auðvitað líka því sem við vorum að ræða áður. Það eru lög í landinu um Ríkisútvarpið. Þau eru ný, þau eru ekkert gömul, þau eru ný, þau eru búin að fá mikla umfjöllun. Og þá skuldar Alþingi, ef þetta á að verða, að svara hverju á að breyta.

Þetta er tillaga um að Ríkisútvarpið verði fyrir 1. mars nk. að leggja fram ný fjárlög sem eiga að taka gildi 1. september og ef allur þessi niðurskurður á að ganga eftir verður eðlisbreyting á stofnuninni. Ég trúi því þegar ný framkvæmdastjórn, ný stjórn Ríkisútvarpsins í opinberu hlutafélagi kemur með neyðaróp, þá trúi ég henni. Þetta er ekki fólk sem er að leika sér með peninga eða sem veit ekki hvað rekstur er.

Ég tel þetta forkastanlegt og sérstaklega vegna þess að þegar við erum að tala um ohf. gilda ekki sérstök lög um það nema hlutafélagalögin, þau gilda um ohf. Það verður erfitt að sjá að þeir sem tóku að sér stjórnunarhlutverk þar, ef því verður stjórnað með valdboði frá einhverjum, þótt það sé þingið eins og í þessu tilfelli, það verður sem sagt alvarlegt umhugsunarefni fyrir þá þingmenn sem styðja þessa tillögu, að þá séu þeir beinlínis að segja við stjórnina: Við viljum ekki hafa ykkur í þessu, við viljum losna við ykkur, við viljum fá einhverja aðra vegna þess að við ætlum að breyta útvarpinu. Þá segi ég það sama og ég sagði í ræðunni: Segið þið bara strax að þið ætlið að loka ákveðinni þjónustu, minnka dreifikerfið, loka landsbyggðinni, hætta íslenskri framleiðslu, segið þið hvað á að gera. Þá breytum við lögunum fyrst og förum svo í breytingar á fjárveitingum.